Valur var það eina í stöðunni

Ívar Örn Jónsson á Hlíðarenda í dag.
Ívar Örn Jónsson á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Jóhann Ingi

„Ég frétti aðeins af þessu í gær og svo fór þetta á fullt í dag. Þetta kláraðist á stuttum tíma," sagði Ívar Örn Jónsson, nýjasti liðsmaður Íslandsmeistara Vals. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Valsmenn, en hann kemur til liðsins frá Víkingi R. þar sem hann var í fimm ár. Fann Ívar fyrir áhuga á fleiri stöðum? 

„Það var aðeins en ekki eins alvarlegt og hér. Þegar Valur kom inn í myndina var þetta það eina í stöðunni. Þetta eru Íslandsmeistararnir og stórt félag. Það er stór partur af þessari ákvörðun á að taka skref í nýtt umhverfi og mikla samkeppni. Ég þarf það á þessum tímapunkti á ferlinum."

Ívar horfir sáttur til baka á árin sín hjá Víkingi. 

„Ég hef ekkert slæmt að segja um tímann minn hjá Víkingi. Ég var rosalega ánægður bæði innan og utan vallar. Við förum upp um deild og í Evrópu á mínum fimm árum þar og við festum okkur í sessi í úrvalsdeild og það er flott. Ég horfi mjög þakklátur og sáttur til baka."

Ívar leikur sem vinstri bakvörður, eins og Bjarni Ólafur Eiríksson. Bjarni er fyrrum landsliðsmaður og átti hann virkilega góða leiktíð í sumar. Ívari hlakkar til að berjast um sæti í liðinu við Bjarna.

„Það er verkefni sem maður þarf að tækla. Samkeppni er af hinu góða og það hafa allir gott af henni.“

Ólafur Karl Finsen skrifaði undir þriggja ára samning við Val í gær og Ívar er ánægður með hversu snöggir Valsmenn eru að næla í leikmenn fyrir næsta sumar. 

„Ég er ánægður með það hugarfar að klára sín mál snemma og vera snöggir að þessu. Að blása í lúðrana eftir velgengni er frábært," sagði Ívar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert