„Eru með mikla og flotta sögu“

„Þær eru með mjög sterkt lið en eru auk þess með mikla og flotta sögu. Hafa unnið marga titla,“ sagði Rakel Hönnudóttir um þýska landsliðið sem Ísland mætir á morgun í undankeppni HM í knattspyrnu í Wiesbaden í Þýskalandi. 

„Þýskaland er á meðal sterkari liða sem við höfum mætt. Ég hef spilað á móti Þjóðverjum fjórum eða fimm sinnum á landsliðsferlinum og þær eru yfirleitt mjög góðar. Þær eru nánast eins og vélmenni: vita nákvæmlega hvað þær eiga að gera og hvar samherjarnir eru. Liðið er vel æft og vel skipulagt,“ sagði Rakel enn fremur en hún sagði leikskipulag íslenska liðsins vera í vinnslu en eftir að landsliðið kom saman í Wiesbaden hafi verið farið smám saman yfir leik þýska liðsins.

„Við þurfum að öllum líkindum að spila meiri varnarleik en í mörgum öðrum landsleikjum. En við erum að fara yfir þýska liðið og okkar leikáætlun er í vinnslu,“ sagði Rakel Hönnudóttir þegar mbl.is ræddi við hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert