Hjá Wolfsburg er stefnt að sigri í öllum keppnum

Sara Björk Gunnarsdóttir á æfingu landsliðsins í vikunni.
Sara Björk Gunnarsdóttir á æfingu landsliðsins í vikunni. Ljósmynd/KSÍ

Þýsku meistararnir í Wolfsburg drógust gegn ítalska liðinu Fiorentina, sem Sigrún Ella Einarsdóttir leikur með, í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir að hafa rótburstað Atletico Madrid í 32-liða úrslitum. Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með Wolfsburg og Morgunblaðið ræddi við hana um Meistaradeildina á hóteli íslenska landsliðsins í Wiesbaden en framundan er leikur gegn Þýskalandi á morgun.

„Ég held að þetta hafi bara verið ágæt niðurstaða. Við getum verið nokkuð sáttar. Reyndar er langt síðan ég spilaði á móti ítölsku liði í Meistaradeildinni. Mig minnir að ég hafi síðast spilað á móti Verona með Rosengård. Við unnum en það var fínt lið. Enn sem komið er veit ég lítið um Fiorentina en ég tel að við séum með það góðan mannskap í okkar liði að við eigum að klára það dæmi.“

Sara segir miklar væntingar vera gerðar til Wolfsburg þegar kemur að Meistaradeildinni. „Hjá Wolfsburg er stefnan er sett á sigur í keppninni en auðvitað spilar inn í hvaða andstæðinga við fáum þegar dregið er. En almennt séð er mikil pressa á stórliðinu Wolfsburg að vinna alla titla rétt eins og hjá þýska landsliðinu. Miklir peningar eru settir í liðið og gerð er sú krafa að við vinnum.“

Lyon ekki óvinnandi vígi

Blaðamaður minnist á franska liðið Lyon sem reynst hefur erfið hindrun og veltir því fyrir sér hvers vegna Lyon virðist vera í sérflokki en liðið hefur unnið keppnina tvö ár í röð. Sara segir muninn á Lyon og Wolfsburg ekki vera mikinn þótt Lyon hafi haft betur síðustu árin.

„Þær eru frábært lið og með frábæra einstaklinga. Þegar við spiluðum á móti Lyon á síðasta tímabili þá áttum við alla möguleika á að komast áfram. Ég hef hins vegar spilað með Rosengård á móti Lyon og verð að viðurkenna að þá áttum við ekki möguleika. Ég var hins vegar virkilega svekkt að hafa ekki unnið Lyon á síðasta tímabili og bilið á milli liðanna er því ekki stórt. Þá hefði maður auðvitað viljað mæta Lyon í úrslitaleik en ekki í 8-liða úrslitum,“ útskýrði Sara og hún er mjög bjartsýn varðandi tímabilið sem nú er nýhafið.

„Við erum með frábært lið á þessu keppnistímabili og höfum byrjað tímabilið hrikalega vel. Leikmannahópurinn er svipaður á milli ára en við erum farnar að kynnast betur og betur. Mér finnst því að við séum enn að bæta okkur. Ég er því mjög spennt fyrir þessu tímabili.“

Stórt skref að taka

Þótt Sara hafi spilað með Malmö og Rosengård, sem voru vel mönnuð lið, þá var það engu að síður töluvert stórt skref að hennar sögn að færa sig yfir til Þýskalands í fyrra og ganga til liðs við Wolfsburg.

„Já, það var mjög stórt skref. Ég fann gríðarlegan mun. Ekki bara varðandi þýsku deildina heldur einnig varðandi liðið sjálft og allt í kringum Wolfsburg. Fagmennskan er meiri og fólk leggur á sig mun meiri vinnu. Rosengård er samt sem áður flott félag og liðið er frábært en þetta var ákveðin áskorun fyrir mig. Ég var orðin vön lífinu og fótboltanum í Svíþjóð enda leið mér vel þar. Ég hefði því getað verið lengur í Svíþjóð en fannst þetta var rétti tíminn á mínum ferli til að skipta um umhverfi og ýta við sjálfri mér sem leikmanni og manneskju,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert