Nær Ísland að brjóta ísinn?

Sara Björk Gunnarsdóttir leiðir íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu í víkingaklappi …
Sara Björk Gunnarsdóttir leiðir íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu í víkingaklappi með stuðningsmönnum sínum eftir sigur gegn Færeyjum í undankeppni HM 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland mætir Þýskalandi í öðrum leik sínum í undankeppni HM 2019 í knattspyrnu kvenna  á Brita-arena í Wiesbaden í Þýskalandi klukkan 14.00 í dag.

Þýska liðið er ógnarsterkt, en liðið er ríkjandi Ólympíumeistarar og státar einnig af tveimur heimsmeistaratitlum og átta Evrópumeistaratitlum. Tölfræði í leikjum Íslands og Þýskalands er ekki beint til þess að vekja von um sigur í brjósti Íslendinga. 

Þýskaland hefur haft betur í öllum 14 leikjum liðanna til þessa og markatalan er 56:3 Þýskalandi í hag. Katrín María Eiríksdóttir, Ragnheiður Víkingsdóttir og Guðrún Sæmundsdóttir eru þær einu sem hafa fundið leiðina framhjá þýsku markvörðunum í gegnum tíðina.

Það er vonandi að íslensku stelpurnar breyti þessari þróun og nái að brjóta blað í sögu íslenskrar kvennaknattspyrnu með því að leggja Þýskaland að velli á eftir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert