Dagný sinnti aðdáendum Bayern

Dagný Brynjarsdóttir áritar treyju aðdáanda í gegnum rimlana á girðingunni.
Dagný Brynjarsdóttir áritar treyju aðdáanda í gegnum rimlana á girðingunni. mbl.is/Kris

Dagný Brynjarsdóttir sinnti aðdáendum síns gamla liðs, Bayern München, að loknum sigurleiknum gegn Þýskalandi í Wiesbaden á föstudagskvöldið. 

Þegar Dagný gekk út af leikvanginum eftir að hafa veitt fjölmiðlum viðtöl var kallað til hennar áður en hún steig upp í rútuna. Við öryggishlið á vellinum höfðu þá safnast saman aðdáendur sem kölluðu til hennar. Í þeim hópi voru meðal annars harðir stuðningsmenn þýska stórliðsins Bayern München sem Dagný varð þýskur meistari með 2015. Þrátt fyrir vonbrigði þeirra með frammistöðu þýska liðsins glöddust þeir yfir framgangi Dagnýjar. Dagný fór hamförum í leiknum, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í sögulegum 3:2-sigri Íslands. 

Dagný rölti til fólksins enda kannaðist hún í það minnsta við einn harðan stuðningsmann Bayern. Sinnti hún óskum um myndatökur og eiginhandaráritanir með girðinguna á milli enda ekki annað í boði.

Á meðfylgjandi mynd sést Dagný árita landsliðstreyju í gegnum girðinguna sem einn stuðningsmaðurinn klæddist. 

Kvennalandsliðið mætir Tékklandi í Znojmo á þriðjuaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert