Kristrún komin til Ítalíu

Kristrún Rut Antonsdóttir.
Kristrún Rut Antonsdóttir. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Kristrún Rut Antonsdóttir, knattspyrnukona frá Selfossi, er gengin til liðs við ítalska B-deildarfélagið Chieti en skýrt var frá þessu á Facebook-síðu Chieti í dag.

Þar var sagt að Kristrún væri loksins komin til móts við sína nýju liðsfélaga og hún hafi þá mætt á fyrstu æfinguna og gengið frá samningum.

Kristrún er 23 ára og hefur leikið með Selfyssingum allan sinn meistaraflokksferil, frá 2010. Hún á að baki 47 leiki með þeim í úrvalsdeildinni og hefur skorað 3 mörk en í ár lék hún alla 18 leiki Selfoss í 1. deild og skoraði 9 mörk.

Þar með leika fjórar íslenskar knattspyrnukonur á Ítalíu en í A-deildinni eru Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir hjá Verona og Sigrún Ella Einarsdóttir hjá Fiorentina.

Chieti hefur leikið tvo leiki á tímabilinu í ítölsku B-deildinni og tapaði fyrst 0:1 fyrir Latina en vann síðan Virtus Partenope, 4:0. B-deildinni er skipt í fjóra riðla þar sem sigurvegararnir komast í úrslitakeppni um sæti í A-deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert