Elín Metta skoðaði aðra kosti

Elín Metta Jensen
Elín Metta Jensen mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég nýtti ákvæði í fyrri samningi mínum við Val um að geta sagt honum upp eftir keppnistímabilið. Ég tók mér tíma til þess að hugsa mín mál. Þegar öllu var á botninn hvolft þá leist mér best á það sem Valur hafði upp á að bjóða,“ sagði Elín Metta Jensen, knattspyrnukona, eftir að hún skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við Val síðdegis í dag en nýverið bárust fregnir af því að hún hafi sagt upp samningi sínum við Hlíðarendaliðið.

„Ég heyrði í forráðamönnum annarra liða á meðan ég velti stöðunni fyrir mér en þegar allt kom til alls þá var það sem Valur hefur upp á að bjóða það áhugaverðasta í stöðunni,“ sagði Elín Metta í samtali við mbl.is.

Hún sagði að ein ástæða þess að hún nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Val í haust hafi verið ákveðin óvissa sem henni fannst ríkjandi hjá liðinu. „Ég er hinsvegar afar ánægð með ráðningu á þjálfaranum auk þess sem Hallbera [Guðný Gísladóttir]  hefur ákveðið að leika með Val.  Mér finnst það mjög jákvætt ásamt öðru,“ sagði Elín Metta Jensen, knattspyrnukona í Val og landsliðskona einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert