Ungir leikmenn til Indónesíu - fjórir nýliðar

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margir ungir leikmenn eru í 22-manna landsliðshópi karlalandsliðsins í knattspyrnu sem leikur vináttulandsleiki í Indónesíu í janúar. Hópurinn var tilkynntur á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ rétt í þessu.

Nýliðarnir í hópnum eru fjórir og þrír þeirra eru leikmenn 21-árs landsliðsins. Það eru Felix Örn Friðriksson, 18 ára leikmaður ÍBV, Mikael Anderson, 19 ára leikmaður Midtjylland í Danmörku sem er í láni hjá Vendsyssel, Samúel Kári Friðjónsson, 21 árs leikmaður Vålerenga í Noregi, og svo er í hópnum Hilmar Árni Halldórsson, 25 ára leikmaður Stjörnunnar.

Haukur Heiðar Hauksson kemur inní hópinn eftir nokkurt hlé en hann var ekkert með landsliðinu á síðasta ári.

Leikirnir fara fram 11. og 14. janúar og eru utan alþjóðlegra landsleikjadaga FIFA þannig að flestir fastamanna landsliðsins eru uppteknir hjá sínum félagsliðum.

Eftirfarandi leikmenn eru í hópnum, landsleikir og mörk fyrir framan:

Markverðir:

  1/0 Rúnar Alex Rúnarsson, Nordsjælland
  1/0 Frederik Schram, Roskilde
  0/0 Anton Ari Einarsson, Val

Varnarmenn: 

74/3 Ragnar Sigurðsson, Rubin Kazan
16/3 Sverrir Ingi Ingason, Rostov
11/0 Jón Guðni Fjóluson, Norrköping
  7/0 Haukur Heiðar Hauksson, AIK
  6/0 Hólmar Örn Eyjólfsson, Levski Sofia
  5/0 Hjörtur Hermannsson. Bröndby
  3/0 Viðar Ari Jónsson, Brann
  3/0 Böðvar Böðvarsson, FH
  0/0 Felix Örn Friðriksson, ÍBV

Miðjumenn:

23/2 Arnór Smárason, Hammarby
15/5 Arnór Ingvi Traustason, Malmö
  5/2 Aron Sigurðarson, Tromsö
  0/0 Hilmar Árni Halldórsson, Stjörnunni
  0/0 Samúel Kári Friðjónsson, Vålerenga
  0/0 Mikael Anderson, Vendsyssel

Sóknarmenn: 

  9/1 Björn Bergmann Sigurðarson, Molde
  3/0 Óttar Magnús Karlsson, Molde
  2/0 Kristján Flóki Finnbogason, Start 
  1/0 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Halmstad

Albert og Kolbeinn líka til Indónesíu?

Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson sagði á blaðamannafundi að hann hafi fengið þá leikmenn sem hann hafi óskað eftir. Hjörtur Hermannsson mun líklega einungis fá leyfi til að spila fyrri leikinn.

Heimir nefndi sérstaklega að hann hefði áhuga á að fá Albert Guðmundsson í verkefnið en svör við því frá PSV munu fást síðar. Einnig sé áhugi fyrir því að fá Kolbein Sigþórsson í ferðina þótt hann verði ekki orðinn leikfær. Ekki sé ljóst hvort Nantes muni gefa leyfi fyrir því. Frakkarnir höfnuðu því í fyrstu atrennu en KSÍ mun athuga málið betur í ljósi þess að ekki standi til að láta hann spila. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert