Felix Örn til skoðunar hjá AaB

Felix Örn Friðriksson
Felix Örn Friðriksson mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Felix Örn Friðriksson leikmaður ÍBV og U21 árs landsliðsins í knattspyrnu verður til skoðunar hjá danska úrvalsdeildarliðinu AaB næstu dagana.

Þetta kemur á vef danska liðsins en lið AaB heldur á morgun í tíu daga æfingaferð til Spánar og mun Felix verða þar til skoðunar hjá danska liðinu. Álaborgarliðið er í 7. sæti af 14 liðum í dönsku úrvalsdeildinni eftir 19 umferðir en deildar keppnin fer af stað eftir vetrarhlé 9. mars.

Felix Örn er 18 ára gamall vinstri bakvörður sem hefur spilað 6 leiki með U21 árs landsliðinu og þá lék hann sínu fyrstu A-landsleiki í ferð landsliðsins til Indónesíu á dögunum. Hann kom við sögu í 21 af 22 leikjum Eyjamanna í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og þá spilaði hann stóran hluta leiksins þegar ÍBV hafði betur gegn FH í bikarúrslitaleiknum í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert