Nýliðunum hent í djúpu laugina á morgun

Freyr Alexandersson á landsliðsæfingu.
Freyr Alexandersson á landsliðsæfingu. mbl.is/Golli

„Það er oft þannig þegar leikmenn fá tækifæri að þá koma þær bæði sjálfum sér og þjálfurunum á óvart og ég vona að við fáum það fram eftir þennan leik,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, í samtali við mbl.is en Ísland mætir Noregi í vináttuleik á La Manga á Spáni á morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem kvenna­landsliðið spil­ar op­in­ber­an leik í janú­ar.

„Það fer mjög vel um okkur og allt er í toppstandi, eiginlega framar vonum. Vellirnir eru alveg frábærir, hótelið gott og fínt veður. Þrátt fyrir að vera á Spáni þá vissi maður ekki alveg við hverju mætti búast með vellina í janúar, en þetta eru með betri völlum sem við höfum fengið,“ sagði Freyr.

Íslenska liðið var komið á áfangastað á fimmtudagskvöld og síðan þá hefur liðið verið við æfingar og undirbúið sig. Nokkuð er um reynsluminni leikmenn í hópnum og meðal annars eiga þær Andrea Mist Pálsdóttir, Anna Rakel Pétursdóttir, Guðný Árnadóttir, Hlín Eiríksdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir ekki A-landsleik að baki.

„Við höfum æft mikið, komist yfir fullt af hlutum og hjálpað nýju leikmönnunum að komast inn í hugmyndafræði liðsins. Það er gott að sjá hvað þær hafa upp á að bjóða og það hefur verið margt jákvætt. Allir eru að taka góð skref fram á við og ég hef verið ánægður með hugarfarið á æfingum. Það verður gott fyrir þær að fá leik á morgun og spreyta sig gegn toppliði,“ sagði Freyr.

Margir leikmenn munu fá tækifæri gegn Noregi.
Margir leikmenn munu fá tækifæri gegn Noregi. mbl.is/Kristinn Magnússon

17 leikmenn munu koma við sögu

Freyr gaf það út fyrir þetta verkefni að hann ætlaði að reyna að gefa sem flestum tækifæri, en alls verða sex skiptingar leyfðar í leiknum. „Það er ljóst að 17 leikmenn taka þátt í leiknum, þótt það verði misjafnt hvernig mínútunum verður skipt,“ sagði Freyr.

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla og ætti það að gefa öðrum leikmönnum enn stærra tækifæri til að sýna sig og sanna.

„Það gefur öðrum tækifæri til þess að máta sig í hennar plássi, sem er stórt enda fyrirliði liðsins. Aðrar verða að stíga upp og taka ábyrgð, sem er fín æfing að sjá hvernig við leysum það.“

Noregur mætti Skotlandi í vináttuleik á föstudag og vann 3:0-sigur. Það má því segja að íslenska liðið hafi fengið smjörþefinn af því sem mætti búast við af norska liðinu á morgun.

„Ég reikna með mjög hörðum leik; bæði lið eru með þannig hugarfar að það verður ekki gefin tomma eftir. Norska liðið er reynslumikið og líkamlega sterkt svo það verður mikið um návígi. Fyrir fram má reikna með að norska liðið verði meira með boltann, en við þurfum að vera tilbúin að refsa fyrir þau mistök sem Noregur mun klárlega gera,“ sagði Freyr.

Freyr Alexandersson ræðir við leikmenn á æfingu landsliðsins.
Freyr Alexandersson ræðir við leikmenn á æfingu landsliðsins. mbl.is/Ófeigur

Ekki minni áhersla á æfingar en leikinn

„Við þekkjum norska liðið vel og vitum að við erum að spila við hörkugott lið. Það er varla hægt að henda þessum nýliðum í dýpri laug en þetta, heldur takast þær á við eitt besta lið í heimi. Það er bara gott og við sjáum þá hvar við stöndum. Ég ætlast til þess að leikmenn leggi sig 100% fram og sjáum svo hvað það fleytir okkur langt,“ sagði Freyr.

Hann er ánægður með það sem hann hefur séð frá yngri leikmönnum hópsins enda er það ekki bara leikurinn sjálfur á morgun sem skiptir máli í því samhengi.

„Það er ekki minni áhersla á æfingar en leikinn. Við þurfum að þroska leikmenn eins hratt og kostur er núna. Það eru mörg jákvæð teikn á lofti. Ég vona að þær muni koma mér á óvart og sjálfum sér líka. Vonandi eru þær nær getustiginu sem andstæðingurinn er á en þær halda kannski sjálfar,“ sagði Freyr Alexandersson við mbl.is, en leikur Noregs og Íslands hefst klukkan 17 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert