Orri samdi við Sarpsborg

Orri Sigurður Ómarsson í leik með Val.
Orri Sigurður Ómarsson í leik með Val. mbl.is/Kristinn Magnússon

Norska knattspyrnufélagið Sarpsborg staðfesti fyrir stundu að gengið hefði verið frá samningum við Orra Sigurð Ómarsson, sem félagið kaupir af Íslandsmeisturum Vals.

Hann hefur samið við félagið til þriggja ára en Sarpsborg hafnaði í þriðja sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Orri er 22 ára gamall og ólst upp hjá HK þar sem hann lék eitt tímabil í meistaraflokki áður en hann fór til Danmerkur og var í röðum AGF í þrjú ár. Þaðan kom hann til Vals og á að baki þrjú tímabil með Hlíðarendafélaginu þar sem hann spilaði 65 af 66 leikjum liðsins í deildinni á þremur árum, alla í byrjunarliðinu.

„Með Orra fáum við miðvörð sem á góðar sendingar og er sterkur í loftinu. Hann spilaði í 90 mínútur í öllum leikjum síðasta tímabils og ég er sannfærður um að hann sé  besti miðvörður íslensku úrvalsdeildarinnar,“ segir Thomas Berntsen, íþróttastjóri Sarpsborg á vef félagsins.

„Orri er nefndur til sögunnar fyrir HM-hóp Íslands en hann á ennþá smá skref eftir þar til hann verður einn af allrabestu miðvörðum íslenska landsliðsins. Hann hefur hinsvegar tekið stöðugum framförum síðustu ár og við erum vissir um að hann muni taka næsta skref hjá okkur,“ sagði Berntsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert