Landsliðsmaður St. Kitts og Nevis til ÍR

Nile Walwyn.
Nile Walwyn. Ljósmynd/Facebook-síða ÍR

Nile Walwyn landsliðsmaður St. Kitts og Nevis, sem er eyríki í karabíska hafinu, er genginn í raðir ÍR og mun leika með liðinu í Inkasso-deildinni í knattspyrnu sumar.

Walwyn, sem verður 24 ára gamall í sumar, er varnarmaður sem spilað hefur tvo landsleiki með St. Kitts og Nevis. Frá þessu er greint frá á Facebook-síðu og þar kemur einnig fram að miðvörðurinn Már Viðarsson er búinn að skrifa undir nýjan tveggja ára samning við Breiðholtsliðið.

ÍR-ingar höfnuðu í 10. sæti í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð undir stjórn Arnars Þórs Valssonar en Brynjar Þór Gestsson tók við þjálfun ÍR-liðsins í vetur. Brynjar stýrði Þrótti Vogum upp í 2. deildina síðastliðið haust.

Walwyn er þó ekki fyrsti landsliðsmaðurinn frá St. Kitts og Nevis sem leikur á Íslandi. Phoenetia Browne, sem hefur leikið með kvennalandsliði þjóðarinnar, gerði það gott með Sindra frá Hornafirði í 1. deild kvenna á síðasta ári og var næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 10 mörk.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert