Hópurinn gegn Slóveníu - Harpa snýr aftur

Harpa Þorsteinsdóttir lék síðast með landsliðinu gegn Austurríki í lokaleiknum …
Harpa Þorsteinsdóttir lék síðast með landsliðinu gegn Austurríki í lokaleiknum á EM í Hollandi í fyrrasumar. AFP

Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu hefur valið 20 leikmenn fyrir næstu tvo leiki í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer í Frakklandi á næsta ári. Harpa Þorsteinsdóttir er á meðal þeirra sem snúa aftur í hópinn.

Ísland mætir Slóveníu í Lendava föstudaginn 6. apríl og svo Færeyjum í Þórshöfn þriðjudaginn 10. apríl. Ísland er í góðri stöðu í undankeppninni og eina taplausa liðið í sínum riðli, eftir meðal annars frækinn útisigur á Þýskalandi síðasta haust. Þýskaland er með 9 stig, Tékkland og Ísland 7, Slóvenía 3 og Færeyjar 0, en Ísland og Slóvenía eiga leik til góða á hinar þjóðirnar.

Athygli vekur að Harpa Þorsteinsdóttir snýr aftur í hópinn en hún hefur ekki verið valin í landsliðið síðan á EM í Hollandi síðasta sumar. Af þeim 23 leikmönnum sem fóru í Algarve-bikarinn um síðustu mánaðamót detta alls sex leikmenn út, eða þær Anna Rakel Pétursdóttir, Guðný Árnadóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Andrea Rán Hauksdóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

Auk Hörpu koma þær Elín Metta Jensen og Sigríður Lára Garðarsdóttir inn að nýju en Elín Metta hefur verið frá keppni á þessu ári vegna beinmars og Sigríður Lára hóf lyfjameðferð vegna liðagigtar í vetur.

Elín Metta Jensen skoraði og lagði upp mark í sigrinum …
Elín Metta Jensen skoraði og lagði upp mark í sigrinum frækna á Þýskalandi síðasta haust. Hún snýr aftur í hópinn nú eftir meiðsli. Ljósmynd/ Peter Hartenfelser

Freyr valdi fjölda sóknarmanna og má því ætla að blásið verði til sóknar gegn Slóvenum sem töpuðu 6:0 fyrir Þýskalandi og 4:0 fyrir Tékklandi, en unnu Færeyjar 5:0.

Íslenski hópurinn:

Markmenn:
59/0 Guðbjörg Gunnarsdóttir, Djurgården
17/0 Sandra Sigurðardóttir, Val
  4/0 Sonný Lára Þráinsdóttir, Breiðabliki

Varnarmenn:
93/3 Hallbera Guðný Gísladóttir, Val
72/0 Sif Atladóttir, Kristianstad
65/2 Glódís Perla Viggósdóttir, Rosengård
39/0 Anna Björk Kristjánsdóttir, LB07
12/0 Ingibjörg Sigurðardóttir, Djurgården
10/0 Svava Rós Guðmundsdóttir, Röa
  4/0 Selma Sól Magnúsdóttir, Breiðabliki

Miðjumenn:
116/19 Sara Björk Gunnarsdóttir, Wolfsburg
  86/5 Rakel Hönnudóttir, LB07
  53/7 Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Utah Royals
  24/6 Sandra María Jessen, Slavia Prag
  12/0 Sigríður Lára Garðarsdóttir, ÍBV

Sóknarmenn:
92/14 Fanndís Friðriksdóttir, Marseille
64/18 Harpa Þorsteinsdóttir, Stjörnunni
32/8 Elín Metta Jensen, Val
14/0 Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki
  5/1 Hlín Eiríksdóttir, Val

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert