Valur er meistari meistaranna

Valsmenn eru meistarar meistaranna eftir 2:1-sigur á ÍBV í Meistarakeppni karla í fótbolta í dag. Öll mörkin komu á síðustu 16 mínútum fyrri hálfleiks, en sigur Valsmanna var verðskuldaður. 

Leikurinn fór rólega af stað og gerðist lítið markvert þangað til Valsmenn skoruðu fyrsta markið. Patrick Pedersen fékk þá fallega sendingu frá Einari Karli Einarssyni, tók vel á móti boltanum og kláraði einstaklega vel fram hjá Derby Carillo í marki ÍBV.

Tíu mínútum síðar var staðan orðin 2:0, en þá skallaði Bjarni Ólafur Eiríksson boltann í netið eftir hornspyrnu Sigurðar Egils Lárussonar. Valsmenn voru mun sterkari aðilinn, en þrátt fyrir það minnkaði Kaj Leo Í Bartalsstovu muninn skömmu fyrir leikhlé með fallegu skoti utan teigs og var staðan í hálfleik því 2:1.

Seinni hálfleikur fór eins af stað og sá fyrri og var mjög lítið um færi. Leikurinn fór að mestu fram á miðsvæðinu og var leikurinn bragðdaufur. Valsmenn náðu tökum á leiknum þegar líða tók á hálfleikinn og sköpuðu sér nokkur ágæt færi. Birkir Már Sævarsson fékk það besta en skot hans í fínni stöðu fór fram hjá markinu. Skömmu áður fékk Tobias Thomsen einnig fínt færi, en Daninn hitti ekki markið.

Eyjamenn spiluðu allra síðustu mínúturnar vel og fengu Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Sindri Snær Magnússon góð færi, en þeir settu boltann hárfínt fram hjá á síðustu fimm mínútunum. Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og sigur Valsmanna staðreynd. 

Valur 2:1 ÍBV opna loka
90. mín. Leik lokið Valsmenn voru sterkari aðilinn heilt yfir sigurinn er sanngjarn. Valur er meistari meistaranna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert