Ætlum að gera mikið betri hluti

Sindri Snær Magnússon (t.v.) fagnar einu marka Eyjamanna síðasta sumar. …
Sindri Snær Magnússon (t.v.) fagnar einu marka Eyjamanna síðasta sumar. Þá endaði ÍBV í 9. sæti, þremur stigum frá fallsæti. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta er bara fínt. Samkvæmt þjálfurum og fyrirliðum er allt fyrir ofan 12. sæti þá mjög gott,“ segir Sindri Snær Magnússon, fyrirliði ÍBV, en bikarmeisturunum er spáð neðsta sæti Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu í ár.

Spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna félaganna 12 í deildinni var kynnt í dag og var Víkingi R. og ÍBV spáð falli.

„Við ætlum ekki að vera þarna. Við ætlum að gera mikið betri hluti, og betri hluti en við höfum verið að gera síðustu 3-4 ár. Það er alveg á hreinu,“ segir Sindri. Miklar breytingar hafa orðið á Eyjaliðinu og erfitt er að ráða í styrk þess nú, sem gæti útskýrt spána:

„Það er svolítið þannig. Síðustu tvö ár hefur liðið verið komið saman mikið fyrr. Við komum seinna saman núna og það sem að fólk sá frá okkur í janúar, febrúar og mars er ekki það sem það fær að sjá nú þegar mótið hefst. Við erum eflaust risastórt spurningamerki fyrir aðra,“ segir Sindri.

Vonast eftir skemmtilegu Evrópuævintýri

„Við fórum í mjög góða æfingaferð til Spánar vikuna fyrir páska og eftir það höfum við smollið heldur betur saman. Útlendingarnir eru að koma betur og betur inn, og menn að kynnast. Hópurinn er orðinn mun nánari í dag,“ bætir hann við.

Sem bikarmeistarar eru Eyjamenn á leið í forkeppni Evrópudeildarinnar í sumar og því eru Sindri og félagar væntanlega enn spenntari en ella fyrir sumrinu:

„Það eru allir mjög spenntir fyrir sumrinu, upp á það að gera betur en síðustu ár og líka að búa til skemmtilegt Evrópuævintýri. Við ætlum okkur að komast alla vega áfram í gegnum eina umferð þar. Við byrjum á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert