Mikið, mikið erfiðara verkefni

Keflvíkingar fagna sæti sínu í Pepsi-deildinni.
Keflvíkingar fagna sæti sínu í Pepsi-deildinni. Ljósmynd/Páll Ketilsson

„Við ætlum okkur hluti í þessari deild og lykilmarkmiðið fyrir okkur er að tryggja sæti okkar og stöðu í deildinni. Við myndum sætta okkur við þetta sem fyrsta markmið,“ segir Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur, en nýliðunum er ekki spáð falli úr Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar.

Keflavík byrjar Íslandsmótið á heimsókn í Garðabæ á föstudaginn þar sem liðið mætir Stjörnunni kl. 20.

Keflvíkingar hafa litlar breytingar gert á liði sínu frá því að þeir unnu sér sæti í úrvalsdeildinni síðasta haust, með því að enda í 2. sæti Inkasso-deildarinnar. Felst ekki of mikil áhætta í því að sækja ekki meiri liðsstyrk eftir stökkið stóra á milli deilda?

„Það á bara eftir að koma í ljós. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta er mikið, mikið erfiðara og stærra verkefni en við vorum í í fyrra. En við spiluðum á mörgum ungum leikmönnum í fyrra sem tóku út ákveðinn þroska. Við erum að gera kröfur á þá að þeir þroskist hratt og örugglega hjá okkur og verði tilbúnir í þessa deild. Þetta verður erfiður bardagi en við höfum trú á hópnum okkar og gerum allt til þess að tryggja sæti okkar í deildinni,“ segir Guðlaugur.

Ef þeir haldast heilir erum við klárir í allt

Keflavík er með sterka, erlenda leikmenn í sínum röðum, eins og fyrirliðann skoska Marc McAusland sem leikur í miðri vörninni og dönsku sóknarmennina Jeppe Hansen og Lasse Rise.

Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur.
Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur.

„Þeir þekkja íslenska boltann og þessa deild þannig séð. Jeppe hefur spilað í deildinni og svo erum við með leikmenn sem hafa spilað á háu stigi í öðrum löndum. Við leggjum mikla ábyrgð á þeirra herðar. Þeir hafa fallið vel inn í hópinn og samfélagið, sem skiptir miklu máli. Þeir gefa af sér og hjálpa okkur að þroska þessa ungu leikmenn sem við erum með. Svo erum við með reynslubolta sem eru Keflvíkingar, með fullt af leikjum í úrvalsdeild, og ef þeir haldast heilir teljum við okkur klára í allt,“ segir Guðlaugur og vísar til manna á borð við Hólmar Örn Rúnarsson, prímusmótorinn á miðjunni. 

Keflavík notaði 4-4-2 leikkerfi á síðustu leiktíð en hefur mikið notast við fimm manna varnarlínu á undirbúningstímabilinu:

„Við undirbjuggum okkur þannig í vetur að við getum bæði leikið með fimm manna og fjögurra manna vörn. Við höfum náð ágætistökum á hvoru tveggja og þetta stækkar bara vopnabúrið, og möguleika okkar á að bregðast við andstæðingnum og þeim leik sem við viljum spila hverju sinni,“ segir Guðlaugur.

Eins og fyrr segir sækir Keflavík Stjörnuna heim í 1. umferð en liðið fær svo Grindavík í heimsókn í grannaslag í fyrsta heimaleik sínum, mánudagskvöldið 7. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert