Enginn skellur að spila í Egilshöll

Helgi Sigurðsson stýrði Fylki til sigurs í Inkasso-deildinni á síðustu …
Helgi Sigurðsson stýrði Fylki til sigurs í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnúss.

„Í sjálfu sér yrðum við ánægðir með þetta. Það er oft eðlilegt að nýliðum sé spáð falli en í flestum spám nú er því spáð að við rétt höngum í deildinni. Þetta kemur því ekki mjög á óvart,“ segir Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis.

Nýliðum Fylkis er spáð 9. sæti í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í sumar, af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum liðanna tólf. Víkingi R. og ÍBV er hins vegar spáð falli.

„Við förum bara brattir inn í mótið. Okkur hefur gengið tiltölulega vel í vetur og við höfum safnað mörgum sigrum. Við förum með ágætissjálfstraust í þetta. Við erum samt meðvitaðir um að þetta verður gríðarlega erfitt, og þegar spennustigið kemur inn síðustu dagana fyrir mót þá geta hlutirnir breyst. Við þurfum að einbeita okkur að hverju verkefni fyrir sig en megum ekki gleyma að njóta stundarinnar líka,“ segir Helgi.

Fylkismenn leika fyrstu þrjá heimaleiki sína í Egilshöll þar sem ekki hefur verið lokið við að breyta Floridana-vellinum í Árbæ í gervigrasvöll.

Helgi Valur smávægilega meiddur

„Það er enginn skellur fyrir okkur. Okkur hefur gengið mjög vel í Egilshöll í vetur og þekkjum allar aðstæður þar mjög vel. Við höfum vitað í allan vetur að við myndum ekki spila þrjá fyrstu heimaleikina í Árbænum svo þetta eru engin vonbrigði. Við reynum bara að gera það besta úr þessu,“ segir Helgi. Aðspurður hvort allir hans leikmenn væru klárir í slaginn í fyrsta leik tímabilsins, grannaslaginn við Víking R. í Fossvogi á laugardag kl. 18, svaraði Helgi:

„Það er helst Helgi Valur [Daníelsson] sem á í smávandræðum. Hann verður þó klár fljótlega. Hann hefur verið með okkur frá því í æfingaferðinni en meiddist lítillega í síðustu viku og verður því sennilega ekki með í fyrsta leik. Að öðru leyti ætti liðið að vera klárt.“ Helgi Valur tók fram skóna að nýju í vetur en þessi 36 ára gamli fyrrverandi landsliðsmaður lék síðast með AGF í Danmörku árið 2015.

Fylkir sækir Víking R. heim á laugardag kl. 18 og tekur svo á móti KA í Egilshöll sunnudaginn 6. maí.

Helgi Valur Daníelsson er kominn aftur í Árbæinn eftir langan …
Helgi Valur Daníelsson er kominn aftur í Árbæinn eftir langan feril í atvinnumennsku og sem landsliðsmaður. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert