Löng saga og stutt saga

Dion Acoff og Pálmi Rafn Pálmason í leik Vals og …
Dion Acoff og Pálmi Rafn Pálmason í leik Vals og KR í fyrra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þegar gömlu Reykjavíkurstórveldin Valur og KR mætast í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla á Valsvellinum í kvöld verður það í 151. skipti sem þau eigast við á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Stjarnan og Keflavík sem mætast á sama tíma eiga öllu styttri sögu af viðureignum sín á milli.

Fyrir 103 árum var fyrsta viðureign Vals og KR háð á gamla Melavellinum og KR vann þá öruggan sigur, 5:1. Frá þeim tíma hefur verið mikið jafnræði því í 150 viðureignum til þessa hefur KR sigrað 56 sinnum og Valur í 52 skipti.

Enn meira jafnræði ríkir þegar horft er á síðustu þrjá áratugina, eða síðan þau hófu bæði að leika á sínum heimavöllum eftir að þau höfðu deilt Melavellinum og síðan Laugardalsvellinum frá upphafi Íslandsmótsins. Í 60 viðureignum frá þeim tíma hefur Valur unnið 23 leiki en KR 22 og 15 hafa endað með jafntefli.

Síðustu þrjú árin hafa Valsmenn þó haft undirtökin. KR hefur ekki náð í stig á Hlíðarenda í síðustu þremur heimsóknum og aðeins unnið einn af sex leikjum liðanna frá 2015. 

Í fyrra skoruðu Guðjón Pétur Lýðsson og Sigurður Egill Lárusson fyrir Val í 2:1 sigri gegn KR á Hlíðarenda. Fyrir KR skoraði Tobias Thomsen, sem nú er kominn í Val og mætir sínum gömlu samherjum í kvöld.

Kristinn Freyr Sigurðsson, sem nú er kominn aftur í Val eftir eins árs dvöl hjá Sundsvall í Svíþjóð, skoraði bæði mörk Vals í 2:0 sigri gegn KR á Hlíðarenda árið 2016.

Og fyrir þremur árum var það Patrick Pedersen sem gerði tvö marka Vals og Haukur Ásberg Hilmarsson eitt í 3:0 sigri gegn KR á Hlíðarenda.

Sigurbergur Elísson með boltann í leik Keflavíkur og Stjörnunnar fyrir …
Sigurbergur Elísson með boltann í leik Keflavíkur og Stjörnunnar fyrir þremur árum. Ljósmynd/Víkurfréttir

Síðast vann Stjarnan stórsigur á Keflavík

Keflvíkingar leika í kvöld sinn fyrsta leik í efstu deild í þrjú ár þegar þeir mæta Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabæ klukkan 20.

Þegar liðin mættust síðast, í næstsíðustu umferð deildarinnar árið 2015, voru Keflvíkingar neðstir og fallnir og fengu allháðuglega útreið því Stjarnan vann leikinn 7:0. Það er stærsti sigur Garðabæjarliðsins í efstu deild frá upphafi og þriðja versta tapið í langri sögu Keflavíkurliðsins á þeim vettvangi.

Guðjón Baldvinsson skoraði þrennu í leiknum og eitt marka Stjörnunnar skoraði Jeppe Hansen, sem nú er í lykilhlutverki í framlínu Keflvíkinga.

Jeppe skoraði reyndar fyrir Stjörnuna í báðum leikjunum gegn Keflavík árið 2015 því hann gerði líka mark í 2:1 sigri Garðbæinga í fyrri leiknum suður með sjó.

Fram að þessum leikjum árið 2015 hafði verið jafnræði með Stjörnunni og Keflavík frá því liðin mættust fyrst í efstu deild árið 1994. Fyrsta viðureign þeirra endaði 1:1 á gamla grasvellinum í Garðabæ þar sem Leifur Geir Hafsteinsson skoraði fyrir Stjörnuna en Óli Þór Magnússon fyrir Keflavík. Seinni leikinn í Keflavík unnu heimamenn 4:1 þar sem Ragnar Margeirsson skoraði tvö markanna.

Í heild hafa Stjarnan og Keflavík mæst í 22 skipti í efstu deild. Stjarnan hefur unnið 9 leiki og Keflavík 7 en 6 hafa endað með jafntefli. Af síðustu sex leikjunum hefur Stjarnan hins vegar unnið fimm og einn endað með jafntefli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert