Fjórtándi í röð hjá FH-ingum?

Gunnar Heiðar Þorvaldsson sóknarmaðurinn reyndi hjá ÍBV sækir að marki …
Gunnar Heiðar Þorvaldsson sóknarmaðurinn reyndi hjá ÍBV sækir að marki FH í bikarúrslitaleik liðanna í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

FH-ingar mæta væntanlega fullir sjálfstrausts til Vestmannaeyja í dag þegar þeir mæta þar ÍBV í fyrsta leiknum í fimmtu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta en hann hefst klukkan 15 á Hásteinsvelli.

FH er með 9 stig í öðru sæti deildarinnar eftir fjórar umferðir á meðan ÍBV situr á botninum með eitt stig. Til viðbótar því hefur FH ekki tapað fyrir Eyjamönnum í þrettán leikjum í röð í deildinni. Síðast gerðist það árið 2011 þegar ÍBV, þá undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, vann 3:1 sigur þar sem Kelvin Mellor, Tryggvi Guðmundsson og Andri Ólafsson skoruðu fyrir ÍBV en Matthías Vilhjálmsson fyrir FH.

Frá þeim tíma hefur FH unnið átta leiki og ÍBV fimm af þrettán viðureignum liðanna í deildinni. Í fyrra vann FH báða leikina og Steven Lennon gerði sigurmarkið í þeim báðum, 1:0 í Kaplakrika og 2:1 í Eyjum þar sem Lennon skoraði á síðustu mínútunni. Lennon hefur verið Eyjamönnum sérlega erfiður og og skorað 7 mörk gegn þeim í deildinni frá 2014.

En Eyjamenn hafa þó svaraði fyrir sig í bikarkeppninni undanfarin tvö ár. ÍBV vann FH 1:0 í undanúrslitum á Hásteinsvelli sumarið 2016 og Eyjamenn sigruðu FH-inga 1:0 í úrslitaleik bikarkeppninnar á Laugardalsvelli síðasta sumar þar sem Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði sigurmarkið.

Heimavöllur mikilvægur hjá Fjölni og KR

Fjölnir og KR mætast í seinni leik dagsins en viðureign liðanna hefst í Grafarvogi klukkan 19.15. Þetta er fyrsti heimaleikur Fjölnis á grasi en liðið lék fyrstu tvo heimaleikina í Egilshöllinni.

Fjölnir og KR eru hnífjöfn fyrir leikinn í kvöld í 6. og 7. sæti deildarinnar, eru bæði með 5 stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar, og bæði með jafna markatölu. Sigurliðið verður komið í þriðja sætið í leikslok.

Heimavöllurinn hefur nánast allt að segja þegar Fjölnir eigast við. KR hefur aðeins unnið einu sinni í sex heimsóknum í Grafarvog í efstu deild en á hinn bóginn hefur Fjölnir ekki fengið eitt einasta stig í sex heimsóknum í Vesturbæinn.

Í fyrra vann KR 2:0 heimasigur í fyrri leiknum þar sem Pálmi Rafn Pálmason og Óskar Örn Hauksson skoruðu mörkin. Síðan skildu þau jöfn, 2:2, í Grafarvogi þar sem Ingimundur Níels Óskarsson og Birnir Snær Ingason skoruðu fyrir Fjölni og þeir Tobias Thomsen og Ástbjörn Þórðarson fyrir Fjölni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert