Keflavík, ÍR og Fylkir áfram

Harður slagur í bikarleik ÍA og Keflavíkur í dag.
Harður slagur í bikarleik ÍA og Keflavíkur í dag. Ljósmynd/Sigurður Arnar Sigurðsson

Keflavík, ÍR og Fylkir tryggðu sér í dag sæti í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu og slógu út lið ÍA, Gróttu og Þróttar.

Keflavíkurkonur gerðu góða ferð á Akranes og lögðu þar ÍA að velli, 2:0, á Norðurálsvellinum. Anita Lind Daníelsdóttir skoraði á 57. mínútu og fimm mínútum síðar gerðu Skagakonur sjálfsmark. Liðin mættust í úrslitaleik C-deildar Lengjubikarsins á dögunum og þá vann Keflavík líka í hörkuleik, 3:2.

ÍR vann Gróttu, 3:1, í Mjóddinni. Guðrún Ósk Tryggvadóttir kom ÍR yfir og Heba Björg Þórhallsdóttir bætti við tveimur mörkum fyrir hlé. Lilja Nótt Lárusdóttir minnkaði muninn fyrir Gróttu skömmu fyrir leikslok.

Fylkir vann Þrótt 2:0 í Laugardalnum og fylgdi eftir sigri í leik sömu liða í Inkasso-deildinni fyrir nokkrum dögumn. Hulda Sigurðardóttir skoraði í fyrri hálfleik og Þróttarar gerðu sjálfsmark í þeim síðari.

Seinni þrír leikirnir í 2. umferð fara fram annað kvöld. Einherji tekur á móti Fjarðabyggð/Hetti/Leikni á Vopnafirði, Fjölnir og Haukar mætast í Egilshöll og Hvíti riddarinn mætir Aftureldingu/Fram í grannaslag á Varmárvelli í Mosfellsbæ.

Dregið verður til sextán liða úrslitanna á miðvikudag en þá mæta liðin tíu úr Pepsi-deild kvenna til leiks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert