„Afburðagóðar í fyrri hálfleik“

Kristrún Antonsdóttir, Selfossi, og Guðný Árnadóttir, FH, eigast við í …
Kristrún Antonsdóttir, Selfossi, og Guðný Árnadóttir, FH, eigast við í leiknum á Selfossi í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss, var kampakátur í leikslok eftir að liðið hans vann sinn fyrsta sigur í deildinni í kvöld. FH kom í heimsókn á Selfoss og lokatölur urðu 4:1. Orri Þórðarson, kollegi hans hjá FH, var ekki jafnkátur.

„Okkar stúlkur voru afburðagóðar í fyrri hálfleik en áttu aðeins erfitt uppdráttar í seinni hálfleik. Við gáfum hins vegar ekki mörg færi á okkur en það varð smá taugaveiklun þegar þær minnkuðu muninn í 3:1, þó að það væri lítið eftir þá er allt hægt í fótbolta,“ sagði Alfreð í samtali við mbl.is eftir leik. „En við sýndum fína liðsheild og ég er ótrúlega ánægður með þær.“

„Varnarlínan hélt mjög vel hjá okkur og við vorum yfir á miðjunni en ég vil ekkert taka einhverja sérstaka línu út, þær stóðu sig bara allar mjög vel. Ég er ótrúlega stoltur af þessari frammistöðu.“

Guðný Árnadóttir minnkaði muninn fyrir FH í 3:1 þegar lítið var eftir með frábæru aukaspyrnumarki og Alfreð var svekktur að ná ekki að halda hreinu.

„Já, það var svekkjandi, en Guðný kann að þenja boltann. Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið óverjandi?“ sagði hann léttur.

Næsta verkefni Selfyssinga er mikilvægur leikur í botnbaráttunni gegn Grindavík á útivelli.

„Við fögnum í kvöld og erum ánægð að vera komin með þrjá punkta á töfluna. Næsti leikur er vissulega mikilvægur en það er búinn að vera stígandi í þessu hjá okkur og ef við leggjum okkur áfram svona fram þá getum við gert ýmislegt.“

„Vorum ekki nógu grimmar“

„Mér fannst þetta bara lélegt hjá okkur. Þetta var aldrei neinn 4:1 leikur, það gefur ekki rétta mynd af gangi leiksins,“ sagði Orri Þórðarson, þjálfari FH, eftir tapið í kvöld.

„Hins vegar vorum við ekki að skapa okkur neitt. Við vorum að halda boltanum ágætlega á 2/3 af vellinum en þegar við komum á síðasta þriðjunginn var ekki mikið að frétta.“

Selfyssingar hafa byrjað mótið illa og ekki náð að skora mark fyrr en í leiknum í kvöld. Því var hægt að spyrja Orra að því hvort FH-ingar væru eitthvað að vanmeta stöðuna?

„Nei, ég neita að trúa því. Að minnsta kosti vorum við þjálfararnir ekki að því. Selfoss hefur styrkt sig á undanförnum dögum og vikum og ég held að Selfoss sé með best mannaða lið af nýliðum að vera, af liði sem kemur upp í efstu deild,“ sagði Orri enn fremur og bætti við að sitt lið hefði verið á hælunum framan af leik.

„Við fáum á okkur skítamark eftir tíu mínútur og svo annað úr föstu leikatriði, en við vorum bara ekki nógu grimmar að mæta inn í teiginn hinum megin þegar við vorum að koma upp völlinn með fyrirgjafir og sendingar. Þá voru of fáir mættir fyrir markið hjá okkur og það er eitthvað sem við þurfum klárlega að bæta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert