Blikar og Víkingar bjóða upp á þrennur

Vladimir Tufegdzic og Davíð Kristján Ólafsson í leik Breiðabliks og …
Vladimir Tufegdzic og Davíð Kristján Ólafsson í leik Breiðabliks og Víkings í fyrra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Breiðablik getur í kvöld náð þriggja stiga forystu á nýjan leik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en þá fara fram þrír síðari leikirnir í fimmtu umferð deildarinnar. Þeir áttu allir að fara fram í gærkvöld en var seinkað um sólarhring vegna slæms veðurútlits.

Breiðablik tekur á móti Víkingi úr Reykjavík á Kópavogsvelli klukkan 19.15. Blikar eru með 10 stig, jafnmörg og FH-ingar sem hafa lokið sínum leik í fimmtu umferðinni. Víkingar eru með 5 stig og eru í áttunda sætinu sem stendur en kæmust í efri hluta deildarinnar með sigri.

Í fyrra unnu liðin hvort annað á útivöllum. Blikar unnu þá 3:2 í Fossvogi við óvenjulegar aðstæður þar sem bæði lið voru þá án þjálfara. Víkingar unnu seinni leikinn á Kópavogsvelli, 2:1, þar sem Geoffrey Castillion, nú leikmaður FH, skoraði tvívegis eftir að Aron Bjarnason hafði komið Blikum yfir.

Leikir liðanna bjóða oft upp á mörk og þrjár þrennur hafa litið ljós í viðureignum þeirra á seinni árum. Björgólfur Takefusa gerði þrennu í 6:2 sigri Víkings á Kópavogsvelli 2011, Árni Vilhjálmsson gerði þrennu í 4:1 sigri Blika á Kópavogsvelli 2014 og Óttar Magnús Karlsson gerði þrennu fyrir Víking í 3:1 sigri á Víkingsvelli 2016.

Liðin mættust fyrst í efstu deild árið 1972 en þá skoraði Þór Hreiðarsson sigurmark Blika í 1:0 sigri á þáverandi heimavelli þeirra, Melavellinum í Reykjavík. Frá þeim tíma hafa Víkingar unnið 14 leiki, Blikar 11 og 13 hafa endað með jafntefli. Fyrsta viðureign liðanna á Íslandsmóti var þó í gömlu 2. deildinni árið 1957, fyrsta árið sem Breiðablik var með lið, og Víkingar sigruðu þá 6:2.

Sam Hewson og Einar Karl Ingvarsson í úrslitaleik Vals og …
Sam Hewson og Einar Karl Ingvarsson í úrslitaleik Vals og Grindavíkur í Lengjubikarnum í vor þar sem Valsmenn höfðu betur. mbl.is/Árni Sæberg

Langt síðan Valur skoraði í Grindavík

Grindvíkingar fá Íslandsmeistara Vals í heimsókn kl. 19.15 og þar er um athyglisverða viðureign að ræða. Grindavík var annað tveggja liða sem vann Val í fyrra í deildinni, þá 1:0 í Grindavík með marki Andra Rúnars Bjarnasonar. Valur vann seinni leikinn 2:0 á Hlíðarenda þar sem Einar Karl Ingvarsson gerði bæði mörkin.

Grindavík mætir til leiks í 3. sæti með 7 stig en Valur í 5. sæti með 6 stig.

Valur hefur ekki skorað í tveimur síðustu heimsóknum til Grindavíkur en næsti leikur þar á undan var árið 2012 þegar Pape Mamadou Faye og Matthías Örn Friðriksson skoruðu fyrir Grindavík í 2:0 sigri.

Félögin mættust fyrst á Íslandsmóti árið 1995 en þá unnu nýliðar Grindavíkur 3:0 sigur á Valsvellinum. Tómas Ingi Tómasson gerði tvö markanna og Ólafur Ingólfsson eitt. Frá þeim tíma hefur Valur unnið 15 af 30 viðureignum félaganna í deildinni, Grindavík hefur unnið 9 og 6 endað með jafntefli.

Oddur Ingi Guðmundsson og Alex Þór Hauksson í bikarslag Stjörnunnar …
Oddur Ingi Guðmundsson og Alex Þór Hauksson í bikarslag Stjörnunnar og Fylkis í vor. mbl.is/Hari

Einn Fylkissigur í þrettán leikjum

Stjarnan mætir Fylki á Samsung-vellinum klukkan 19.15 og Garðbæingarnir freista þess enn að vinna fyrsta sigurinn í deildinni á tímabilinu. Þeir unnu reyndar Fylki í bikarkeppninni, 2:1, þann 1. maí. Stjarnan er með 3 stig í 10. sæti en Fylkir er hins vegar með 7 stig í 4. sætinu fyrir leiki kvöldsins.

Liðin mættust síðast í deildinni 2016 og Stjarnan vann báða leikina, 2:0 í Garðabæ með tveimur mörkum Veigars Páls Gunnarssonar og 2:1 í Árbænum þar sem Hilmar Árni Halldórsson gerði bæði mörk Stjörnunnar en Andrés Már Jóhannesson skoraði fyrir Fylki.

Stjarnan hefur haft gott tak á Fylki og unnið síðustu sex viðureignir liðanna í efstu deild. Fylkir hefur reyndar aðeins landað einum sigri í síðustu 13 leikjum liðanna í deildinni.

Félögin mættust fyrst í efstu deild 1996 þegar Helgi Björgvinsson skoraði sigurmark Stjörnunnar í 1:0 sigri á gamla grasvellinum í Garðabæ. Stjarnan hefur unnið 12 af 20 viðureignum þeirra á milli í deildinni en Fylkir hefur unnið 5 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert