Sannfærandi sigur hjá Selfossi

Kristrún Antonsdóttir, Selfossi, og Guðný Árnadóttir, FH, eigast við í …
Kristrún Antonsdóttir, Selfossi, og Guðný Árnadóttir, FH, eigast við í leiknum á Selfossi í kvöld, Ljósmynd/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu sinn fyrsta sigur í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tók á móti FH á Selfossi. Lokatölur urðu 4:1 en Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum og sigurinn var verðskuldaður.

Selfossliðið leit mjög vel út í fyrri hálfleik þar sem þær unnu flest návígi og sköpuðu sér betri færi. Eva Lind Elíasdóttir skoraði gott skallamark eftir sendingu frá Magdalenu Reimus á 9. mínútu og hún var svo aftur að verki á 37. mínútu þegar boltinn datt fyrir hana í vítateignum eftir aukaspyrnu Ernu Guðjónsdóttur.

Staðan var 2:0 í leikhléi og seinni hálfleikurinn var mjög rólegur framan af. Diljá Ýr Zomers átti góða innkomu hjá FH-ingum og lífgaði upp á leik þeirra en færin voru af virkilega skornum skammti.

FH svaf á verðinum á 70. mínútu þegar Eva Lind sendi boltann á Sophie Maierhofer fyrir framan vítateiginn. Hún hafði nægan tíma til að athafna sig og lét vaða í þverslána og inn.

Mark leiksins skoraði hins vegar Guðný Árnadóttir fyrir FH á 87. mínútu þegar hún lét vaða úr aukaspyrnu af löngu færi upp í þaknetið á Selfossmarkinu. FH hresstist í kjölfarið en það var allt of seint og Selfoss refsaði þeim enn og aftur í uppbótartímanum þegar Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir afgreiddi boltann snyrtilega í netið eftir sendingu frá Önnu Maríu Friðgeirsdóttur.

Þrátt fyrir sigurinn er Selfoss enn í 9. sæti deildarinnar með 3 stig, eins og þrjú önnur lið, þar á meðal FH sem er í 6. sætinu með talsvert betra markahlutfall.

Selfoss 4:1 FH opna loka
93. mín. Leik lokið Virkilega verðskuldaður sigur Selfyssinga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert