Sito hefur sömu eiginleika og Andri Rúnar

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur.
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ætluðum að mæta þeim af krafti og slá þá út af laginu. Markmiðið var að pressa þá á ákveðnum augnablikum og loka svæðunum aftast á vellinum og það gekk allt upp í kvöld,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, eftir 2:1 sigur liðsins á Val í 5. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Valur er líklega besta lið deildarinnar inni á síðasta þriðjungi vallarins. Þeir eru frábærir í að finna svæðið, bæði fyrir framan vörnina og aftan, en við lokuðum mjög vel á þá. Við gáfum þeim lítinn tíma á boltanum og ég er bara gríðarlega sáttur með mitt lið eftir þennan leik. Menn voru að leggja sig fram, voru duglegir og hlupu mikið og þá kemur oft góð frammistaða ofan á það.“

José Sito skoraði magnað mark fyrir Grindvíkinga í kvöld og segir Óli Stefán að hann komi með mikla vídd í sóknarleik liðsins.

„Hann kemur með hluti inn sem okkur hefur aðeins vantað eftir að Andri Rúnar fór og þá er ég ekki endilega að tala um markaskorun. Við getum sent í fætur á honum og hann er góður að halda boltanum. Hann er alltaf að leita í þessu svæði þar sem við viljum spila boltanum og mér fannst hann geggjaður í dag,“ sagði Óli Stefán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert