Hugarfarið kom mér hingað

Sara Björk Gunnarsdóttir, t.v. fagnar.
Sara Björk Gunnarsdóttir, t.v. fagnar.

„Það er engin tilviljun að ég sé hérna í dag. Ég hef unnið fyrir hverri einustu mínútu. Ég held að ég sé gott dæmi um það að mikil vinna skili meiru en meðfæddir hæfileikar,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, ákveðin á svip og af mikilli sannfæringu. Og hvar er hún? Jú, í Kiev í Úkraínu á leiðinni í leik um ein stærstu verðlaun sem í boði eru í fótbolta, úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Wolfsburg og Lyon, stórveldin tvö í knattspyrnu kvenna, mætast kl. 16 í dag að íslenskum tíma. Sara og liðsfélagar hennar komu hingað til Kiev í fyrrakvöld og æfðu í sól og þægilegum hita á Valeri Lobanovski-leikvanginum í gær, en leikurinn fer fram á þessum 16.000 manna heimavelli Dynamo Kiev. Þar verður Sara að öllum líkindum aftarlega á miðjunni hjá Wolfsburg, ein af að minnsta kosti 22 algjörum heimsklassaleikmönnum sem margar hverjar þekkja það vel að verða Evrópumeistarar. Sara er hins vegar fyrst Íslendinga til að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar, draumur sem hún hefur lengi borið í brjósti en unnið þrotlausa vinnu við að sjá rætast.

„Ég er ekki fædd sem einhver frábær fótboltakona, ég hef bara unnið gríðarlega mikið að því að komast þangað sem ég er í dag. Ég hef gert fullt af æfingum sem enginn veit af og enginn sér mig gera, og allar þessar aukaæfingar hafa klárlega komið mér hingað. Ég hef alltaf lagt 100 prósent í allt sem ég geri. Minn innri styrkur, hugarfarið mitt, er eitt það besta sem ég hef og í gegnum tíðina hef ég oft séð hverju það skilar þegar ég fæ sæti í byrjunarliði í stað leikmanns sem hefur kannski mikla tæknilega hæfileika. Hugarfarið getur fleytt manni ansi langt og er ástæðan fyrir því að ég er hér,“ segir Sara eftir að hafa sest niður með blaðamanni á hóteli Wolfsburg-liðsins.

Viðtalið í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Sindri Sverrisson blaðamaður er í Kiev og mun fylgjast með úrslitaleiknum í dag fyrir mbl.is og Morgunblaðið. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert