„Okkar tímabil byrjaði í kvöld“

Rio Hardy skoraði tvö mörk í Garðabænum í kvöld.
Rio Hardy skoraði tvö mörk í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég veit ekki hvort ég bjóst við að skora tvö mörk í fyrsta leik,“ sagði hin enska Rio Hardy, sóknarmaður Grindavíkur, eftir að hafa skorað tvö marka liðsins í 3:2-sigri á Stjörnunni í 4. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. „En ég vil alltaf skora og hjálpa liðinu, sem betur fer hjálpaði þetta okkur að vinna.“

Hardy var að spila sinn fyrsta leik fyrir Grindavík ásamt tvíburasystur sinni Steffi en þær léku báðar afbragðsvel á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Þær systur fengu leikheimild með liðinu í síðustu viku og segir Hardy að Grindavík geti nú horft fram á við eftir að hafa verið án stiga og ekki einu sinni skorað mark fyrir leik kvöldsins.

„Hugarfarið í liðinu er frábært og við viljum bara leggja hart að okkur og halda áfram. Þetta er aðeins að smella núna held ég þar sem allir leikmennirnir eru mættir og við erum með fullskipað lið.“

Þær systurnar léku síðast í háskólaboltanum í Bandaríkjununum. Hardy segir þeim líka fótboltinn betur á Íslandi.

„Ég hef alltaf verið hrifnari af fótbolta í Evrópu, hér vilja lið spila boltanum.“

„Okkar tímabil byrjaði í kvöld og núna viljum við bara halda áfram. Við systurnar erum ótrúlega þakklátar Grindavík fyrir það tækifæri sem félagið er að gefa okkur og við erum ánægðar að vera hérna,“ sagði hún að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert