„Veit ekki alveg hvað var að gerast þarna“

Sóley Guðmundsdóttir lætur Selmu Sól Magnúsdóttur finna fyrir sér í …
Sóley Guðmundsdóttir lætur Selmu Sól Magnúsdóttur finna fyrir sér í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Selma Sól Magnúsdóttir var skiljanlega sátt eftir 1:0-sigur Breiðabliks gegn ÍBV í fjórðu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Blikar eru með fullt hús stiga í deildinni en leikurinn í dag var nokkuð kaflaskiptur.

„Leikurinn var erfiður. Þetta gekk upp og niður, við vorum góðar á köflum en síðan ekkert spes. Við náðum ekki að tengja nógu vel saman en þetta gekk svo betur og betur. Í lokin voru þær svo að sækja aðeins á okkur, en fengu held ég ekki neitt færi. Það er gott, við náðum að halda þeim vel til baka og erum ánægðar með þrjú stig,“ sagði Selma.

Aðstæður voru nokkuð skrautlegar í Kópavogi í kvöld. Í fyrri hálfleik gekk á með hellirigningu en í síðari hálfleik var komin sól og blíða.

„Mér finnst langskemmtilegast að spila í rigningu. Það er alltaf ákveðin stemning og það var mjög gaman í dag. Þetta er víst svona hérna, við ráðum ekkert við þetta,“ sagði Selma.

Skrautlegt atvik átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks. Fjolla Shala braut þá af sér á miðjunni en eftir nokkra óvissu var það Selma Sól sem fékk gula spjaldið. Hún var skiljanlega steinhissa.

„Já, ég bjóst nú ekki við þessu, ég var svolítið langt frá atvikinu. Hann segir að þetta hafi verið ég svo ég tek þetta bara á mig, það er ekkert mál. Ég veit ekki alveg hvað var að gerast þarna, tek þetta bara fyrir liðið. Það er ekkert mál,“ sagði Selma Sól Magnúsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert