„Á að skora fleiri svona mörk“

Frá leiknum á Akranesi í kvöld.
Frá leiknum á Akranesi í kvöld. Ljósmynd/Sigurður Elvar

„Það var geggjað að ná að jafna eftir að hafa lent 2:1 undir. Ég held að ég hafi skorað síðast á þessum velli með Keflavík og ég kann greinilega vel við mig hérna,“ sagði Magnús Þór Magnússon, leikmaður Njarðvíkur, eftir leikinn gegn ÍA í Inkasso-deildinni í fótbolta í kvöld.

Magnús Þór jafnaði metin með glæsilegu skallamarki á 85. mínútu. „Þetta er eitthvað sem við höfum æft mikið og mér finnst að ég eigi að skora fleiri mörk úr svona föstu leikatriði. Ég er stór og á að geta nýtt þetta betur.“

Magnús segir að upphafið á tímabilinu hafi gengið vel hjá Njarðvík.

„Við erum að koma upp úr 2. deild en mér finnst við vel eiga heima hérna. Liðið ætlar sér meira en að hanga í deildinni – við ætlum að láta að okkur kveða og sýna að við eigum heima í þessum styrkleikaflokki,“ bætti Magnús Þór við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert