Er öll að koma til

Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir. mbl.is/Golli

Landsliðskonan Rakel Hönnudóttir, leikmaður sænska knattspyrnuliðsins Limhamn Bunkeflo, hefur glímt við meiðsli síðustu vikurnar og hefur ekki getað spilað með liðinu í síðustu fjórum leikjum í sænsku úrvalsdeildinni.

Rakel, sem gekk í raðir sænska liðsins frá Breiðabliki síðastliðið haust, byrjaði tímabilið vel og skoraði í fyrsta leik sínum með liðinu en hún varð svo fyrir meiðslum í öðrum leiknum og hefur verið á meiðslistanum síðan þá.

„Ég tognaði aftan í lærinu fyrir fimm vikum í leik gegn Kristanstad. Ég er samt öll að koma til, er byrjuð að æfa og geri ráð fyrir að spila part af næsta leik sem er á fimmtudaginn,“ sagði Rakel í samtali við mbl.is í dag en með henni hjá Bunkeflo leikur landsliðskonan Anna Kristjánsdóttir. Næsti leikur Bunkeflo er á móti Rosengård en með því liði spilar landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir.

Bunkeflo er í fimmta sæti deildarinnar með 8 stig eftir sex leiki. Piteå trónir á toppnum með 15 stig eftir fimm leiki og Rosengård er í öðru sætinu með 10 stig.

Þar sem Rakel er öll að koma til má reikna með því að hún verði valin í landsliðshópinn sem tilkynntur verður á mánudaginn en Ísland tekur á móti Slóveníu í undankeppni HM á Laugardalsvellinum 11.júní. Rakel, sem er 30 ára gömul, á 92 leiki að baki með íslenska landsliðinu og hefur í þeim skorað 7 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert