Fagnar aukinni pressu

Alfreð Finnbogason á æfingu landsliðsins á Laugardalsvellinum í gær.
Alfreð Finnbogason á æfingu landsliðsins á Laugardalsvellinum í gær. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég er í fínu standi og núna er ég bara spenntur að byrja æfa af fullum krafti með landsliðinu. Ég er sáttur við endirinn á tímabilinu og hvernig ég hef nýtt þá frídaga sem ég hef haft, síðan deildin kláraðist í Þýskalandi," sagði Alfreð Finnbogason, framherji íslenska landsliðsins í knattspyrnu í samtali við mbl.is á æfingu liðsins í gær.

„Ég átti gott tímabil í Þýskalandi og hlutirnir voru að falla með mér, allt þangað til ég meiðist. Ég ætla ekki að fara fram úr mér, Robert Lewandowski endaði með 29 mörk og það hefði verið mjög erfitt að toppa það. Næsti maður á eftir honum var hins vegar með 15 mörk en það er alltaf þetta ef og hefði. Það er vissulega svekkjandi að hafa misst af tólf leikjum í 18 liða deild, sérstaklega þar sem að mér gekk svo vel en svona er fótboltinn stundum og ég reyni að einblína á jákvæðu hliðarnar.“

Alfreð mun þurfa að skora mörkin fyrir Ísland í Rússlandi og fagnar framherjinn pressunni sem því fylgir.

„Ég finn ekki fyrir neinni pressu og ég er ánægður með það að fólk ætlist til einhvers af mér. Ég hef lagt hart að mér til þess að koma mér í þessu stöðu. Ég vil að fólk horfi til mín þegar kemur að því að skora mörk, bæði með landsliðinu og mínu félagsliði. Fyrsti leikurinn á HM verður mjög mikilvægur. Það þarf að vera gott jafnvægi á liðinu og markmiðið númer eitt tvö og þrjú í Rússlandi er að komast upp úr riðlinum og við þurfum að spila hrikalega vel til þess að ná því markmiði,“ sagði framherjinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert