Krafa um að maður skili einhverjum mörkum

Baldur Sigurðsson segir nokkur vel valin orð við Helga Mikael …
Baldur Sigurðsson segir nokkur vel valin orð við Helga Mikael Jónasson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þungu fargi er létt af Baldri Sigurðssyni og samherjum hans í liði Stjörnunnar en Garðabæjarliðinu tókst að landa sínum fyrsta sigri í deildinni í fyrrakvöld þegar það skellti Fylkismönnum 3:0 á grasteppinu í Garðabænum.

Baldur, sem er fyrirliði Stjörnunnar, fór fyrir sínum mönnum. Hann átti mjög góðan leik á miðjunni og innsiglaði sigur sinna manna þegar hann skoraði þriðja markið. Baldur skoraði þar með í öðrum leiknum í röð en í síðustu tveimur leikjum hefur hann spilað sem framliggjandi miðjumaður eins og hann gerði jafnan þegar hann spilaði með KR-ingum.

Engin taugaveiklun

„Jú, jú, það er að vissu leyti hægt að segja að okkur sé létt eftir að hafa náð að vinna fyrsta leikinn í deildinni. Það var svo sem ekki komin nein taugaveiklun hjá okkur en sigurinn á móti Fylki var mjög kærkominn og gleðiefni var að okkur tókst loksins að halda markinu okkar hreinu. Fyrir leikinn á móti Fylki vorum við búnir að vera að leka inn mörkum úr föstum leikatriðum, eins og hornspyrnum og vítaspyrnum, en við lékum skynsamlega á móti Fylkismönnum.

Þegar við skorum jafn mikið og raun ber vitni er svekkjandi að ná ekki að vinna og í nokkrum leikjanna höfum við verið að glutra niður forskoti og fá á okkur mörk undir lok leikjanna. Við höfum vonandi lært af þessu. Ég fann fyrir auknum krafti í liðinu í leiknum á móti Val og það var framhald á því í leiknum við Fylki. Við hefðum hæglega getað lent undir í fyrri hálfleik en sem betur fer gerðist það ekki og heilt yfir spiluðum við vel,“ sagði Baldur Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið.

Eins og áður segir skoraði Baldur í öðrum leiknum í röð og hann vantar nú aðeins eitt mark til að ná 50 mörkum skoruðum í efstu deild. Hann skoraði tvö mörk í 22 leikjum Stjörnunnar í deildinni á síðustu leiktíð en hefur nú jafnað það markaskor á þessu tímabili en Baldur hefur komið við sögu í fjórum af fimm leikjum Garðabæjarliðsins.

Sjá allt viðtalið við Baldur og lið 5. umferðarinnar í Pepsi-deild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert