Fannst við eiginlega betri en þær í fyrri

FH mátti sín lítils gegn Þór/KA í dag og niðurstaðan …
FH mátti sín lítils gegn Þór/KA í dag og niðurstaðan varð 4:1-sigur Önnu Rakelar Pétursdóttur og liðsfélaga í Íslandsmeistaraliðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Guðný Árnadóttir miðvörður í liði FH var að vonum vonsvikin eftir 4:1-tap síns liðs gegn Þór/KA þegar liðin mættust í Kaplakrika í dag í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.

„Við vorum að spila mjög vel í  fyrri hálfleik og mér fannst við eiginlega betra liðið í fyrri hálfleik. En svo voru það þessi föstu leikatriði sem mörkin þeirra komu úr og það náttúrulega á ekki að gerast. Við fengum á okkur tvö mörk úr föstum leikatriðum og það gjörbreytti leiknum.“

Það var lítið að gera við fyrsta marki Þórs/KA, sem var draumaskot og kom eftir aukaspyrnu en það seinna sem kom á 43. mínútu leiksins, markamínútunni, var frekar klaufalegt af hálfu FH-inga þegar þær gáfu Örnu Sif Ásgrímsdóttur tíma og pláss í horni. 

FH-stelpur byrjuðu svo seinni hálfleikinn illa og Guðný var meðvituð um það. „Við vorum mjög kraftmiklar í fyrri hálfleik, en það var eins og markið sem kom rétt fyrir hálfleikinn hafi dregið úr okkur. Við ætluðum að koma út  í seinni hálfleik af miklum krafti en það bara tókst ekki. Svo fáum við á okkur tvö klaufaleg mörk og náum ekki að tengja saman.“

„Við gerum þetta svolítið, eigum lélega kafla en hættum samt aldrei. Við náum svo að koma til baka og klára leikinn með marki. Það er jákvætt. Þessi leikur var bæting frá síðasta leik en samt svekkjandi að tapa svona,“ segir þessi efnilegi varnarjaxl sem Hafnfirðingar eiga.

FH situr nú í næstneðsta sæti deildarinnar með 3 stig eftir 5 leiki. Samherjar Guðnýjar mæta svo Valskonum í Mjólkurbikarnum um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert