Þetta var ekkert ljótt

Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar Páll Sigmundsson Ljósmynd/Dave Lee

„Það verður áhugavert að sjá tölfræðina í þessum leik, ég held hún hafi verið mögnuð miðað við færin sem við fengum í þessum leik. Það var synd að fá ekki meira úr þessum leik," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar eftir 1:1-jafntefli við Grindavík í Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld. 

Stjörnumenn voru töluvert sterkari aðilinn allan leikinn, en þrátt fyrir það skipta liðin með sér stigunum. 

„Frammistaða liðsins var mjög góð þó við náðum ekki að setja fleiri mörk. Þeir fá eina sókn í fyrri hálfleik og það kom mark út úr henni, það var klaufaskapur hjá okkur. Við spiluðum vel en Grindavík spilaði góðan varnarleik. Við vorum samt miklu betri aðilinn og vildum þrjú stig."

Rúnar segir það ekki áhyggjuefni að liðið sé bara með einn sigur úr fimm heimaleikjum til þessa. 

„Það er ekkert áhyggjuefni í því, við verðum að halda áfram. Við höfum ekki áhyggjur af því strax þó við hefðum viljað vera með fleiri heimasigra. Við getum gert betur og við ætlum okkur að gera það."

Hann hrósaði Maciej Majewski, markmanni Grindavíkur, en hann var besti maður vallarins. 

„Hann varði feykilega vel í þessum leik. Eins og oft áður þegar lið koma hingað þá var markmaðurinn bestur. Sú saga heldur áfram. Hann stóð sig vel og varði oft mjög vel og þess vegna endaði þetta 1:1."

Rúnar Páll fékk gult spjald frá Guðmundi Ársæli Guðmundssyni í kvöld. Ekki veit Rúnar hvers vegna. 

„Ég veit ekki af hverju ég fékk gult spjald. Það má ekkert segja lengur en þetta var ekkert ljótt," sagði Rúnar Páll að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert