„Við erum að gefa gjafir“

Frá Nettóvellinum í dag.
Frá Nettóvellinum í dag. Ljósmynd/Víkurfréttir/Páll Ketilsson

„Það var margt jákvætt í leiknum hjá okkur en við fengum ekkert fyrir það,“ sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur eftir 3:1-tap á heimavelli gegn ÍBV í 6. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

Keflvíkingar eru nú á botni deildarinnar og bíða enn eftir sínum fyrsta sigurleik. Guðlaugur segir liðið þurfa að fækka varnarmistökunum. Á hinum endanum skutu heimamenn í þrígang í stöng og slá.

„Við erum að gefa gjafir. Ég var ekki ánægður með fyrsta markið en seinni tvö eru svo alveg hræðileg.“

„Þetta var svo sannarlega stöngin út í dag, við skotum nokkrum sinnum í járnin.“

Sigurbergur Elísson var borinn af velli meiddur snemma í síðari hálfleik en hann meiddist á sama hné og hann var í aðgerð á nýlega. Jeppe Hansen var svo ekki í leikmannahóp Keflavíkur og verður hann eitthvað frá, það er því ansi þunnskipaður hópur sóknarmanna eftir á Suðurnesjum.

„Þetta lítur ekkert sérstaklega vel út en við vitum það nánar á morgun. Jeppe tognaði svo í læri og það eru einhverjir leikir í hann.“

„Það munar auðvitað um þessa leikmenn, ekki spurning. Við þurfum að finna einhverjar lausnir,“ sagði Guðlaugur að endingu.

Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur.
Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur. Ljósmynd/Valgarður Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert