Beið lengi eftir þessu augnabliki

Dóra María Lárusdóttir klæddist Valstreyjunni í kvöld í fyrsta skipti …
Dóra María Lárusdóttir klæddist Valstreyjunni í kvöld í fyrsta skipti í langan tíma. mbl.is/Árni Sæberg

Dóra María Lárusdóttir sneri aftur á völlinn í kvöld eftir langa fjarveru vegna krossbandsslits í landsleik í mars 2017. Mikið hefur gengið á síðan þá en í kvöld kom hún inn á þegar Valur landaði 4:0 sigri á erkifjendunum KR.

„Við vorum svolítið seinar í gang í dag. Þær voru mjög skipulagðar og frekar þéttar KR-ingarnir og erfitt að finna leiðina framhjá þeim. En markamínútan var með okkur í liði í dag, sendingin frá Hallberu upp á Crystal var mjög góð og Elín Metta gerði mjög vel í að klára þetta. Mikilvægt fyrir okkur að fá þetta fyrsta mark. Svo átti Guðrún Karítas fáránlega góða innkomu og tryggði það að ég gæti komið inn á í dag með því að setja tvö stórkostleg mörk,“ sagði Dóra María þegar mbl.is ræddi við hana. 

Þegar Dóra er svo spurð um endurkomuna í efstu deild kvenna þá segir hún „mér líður ótrúlega vel, þetta er búinn að vera mjög langur undirbúningur og þó þetta hafi ekki verið lengri tími en þetta (7 mínútur) þá er ég búin að bíða lengi eftir þessu augnabliki.“

Áhorfendur í stúkunni risu úr sætum og klöppuðu kröftuglega fyrir endurkomu Dóru Maríu en hún er búin að spila yfir 260 leiki fyrir félagið sitt og skora í þeim 114 mörk.  

Þessi 4:0 sigur Valsmanna setur þær í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig, á eftir Þór/KA með 16 stig og Breiðablik með 18 stig. Næsti leikur Valskvenna er útileikur við FH á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert