„Eigum í fullu tré við þessi lið“

Halldór Jón Sigurðsson segir að Ajax sé fyrirfram sterkasta liðið …
Halldór Jón Sigurðsson segir að Ajax sé fyrirfram sterkasta liðið í riðlinum. Sigfús Gunnar

Fyrr í dag var dregið í undankeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu. Íslandsmeistarar Þórs/KA voru í drættinum og drógust þær í riðil 1 með Ajax, Linfield og Wexford. Leikirnir munu fara fram á Norður-Írlandi 7. til 13. ágúst.

Halldór Jón Sigurðsson (Donni), þjálfari Þór/KA var spenntur fyrir verkefninu þegar mbl.is heyrði í honum í dag: „Við erum spennt að takast á við Evrópukeppnina. Fyrirfram er held ég Ajax sterkasta liðið. Það er hæst skrifaðasta liðið í þessum riðli. En ég held að við eigum í fullu tré við öll þessi lið.“

Segja má að undankeppni Meistaradeildarinnar sé nokkurskonar hraðmót en spilaðir eru þrír leikir á sex dögum. Donni sagði að liðið væri vant því að spila marga leiki á fáum dögum. „Við byrjuðum náttúrulega Íslandsmótið á því að spila þrjá leiki á átta dögum. Þetta verður ekkert vesen. Það verður bara að nota hópinn og þær eru í hörku standi á miðju keppnistímabili þannig það verður bara að deila þessu á leikmenn en samt sem áður ná góðum úrslitum.“

Donni sagðist aðeins hafa tekist að kynna sér andstæðingana. „Ég er búinn að sjá svipmyndir frá öllum þessum liðum. Bara svona í fljótu bragði. En eðlilega er maður bara að einbeita sér að sunnudeginum. En gaman að geta aðeins gluggað í andstæðingana og svo þekkjum við aðeins til í Englandi og get aflað mér aðeins meiri upplýsinga þegar nær dregur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert