Enginn heimsendir

Helgi Sigurðsson var ekki ánægður með það hvernig hans menn …
Helgi Sigurðsson var ekki ánægður með það hvernig hans menn mættu í leikinn. Valgarður Gíslason

Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis var að vonum ekki ánægður með það hvernig leikmenn hans mættu til leiks í leik Fylkis og KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

„Við komum ekki nógu vel inn í þennan leik og þetta er annar leikurinn í röð þar sem við fáum á okkur tvö mörk á fyrstu 6-7 mínútunum og það er ekki boðlegt. Ég er samt ánægður hvernig menn brugðust við. Minnkuðum muninn fljótlega og svoleiðis. En síðan dettur þetta aftur í sama farið. En seinni hálfleikurinn var mun betri. Menn sýndu alla vega að menn voru tilbúnir að berjast. Við fengum fín færi hérna í seinni hálfleik. En leikurinn var orðinn ansi erfiður þegar staðan er orðinn 4:1 í hálfleik.“

Tap Fylkis í kvöld er fjórði tapleikur liðsins í röð og er liðið í næstneðsta sæti deildarinnar með 11 stig. Helgi Sigurðsson var ekki með skýringar á reiðum höndum hvers vegna gengi liðsins væri jafnslæmt og raun ber vitni:

„Ef maður væri með skýringu væri maður auðvitað búinn að laga það. Þetta er eitthvað sem gerist þegar menn tapa leikjum, þá fer sjálfstraustið niður. En það er nóg eftir af þessu móti og þessir leikmenn eru alveg nógu góðir til að laga það. Við þurfum bara allir að laga til í hausnum á okkur. Hvort sem það eru þjálfararnir eða leikmennirnir. Við þurfum að standa saman og finna lausn á þessu því við vitum alveg að við getum spilað fótbolta og svoleiðis. Við þurfum bara að passa það að við séum ekki að gefa liðunum 2-3 mörk í forgjöf marga leiki í röð. Þannig jú. Ósátur með úrslitin en enginn heimsendir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert