KSÍ tilbúið að hækka laun Heimis

Heimir Hallgrímsson er hættur með landsliðið.
Heimir Hallgrímsson er hættur með landsliðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að ákvörðun Heimis Hallgrímssonar um að hætta með íslenska karlalandsliðið hafi alls ekki snúist um peninga. Sagði hann einnig að KSÍ hafi verið tilbúið að hækka laun Heimis, hefði hann kosið að halda áfram.

„Heimir var á fínum launum og við ræddum þau ekki. Þessi ákvörðun snerist ekki neitt um launin. Við ræddum þau fyrir HM og töluðum um að það yrði prósentuhækkun og við vorum tilbúin að teygja okkur og gera betur við hann. Launin tengdust árangri og svo framvegis, þetta snerist ekki um peninga," sagði Guðni. 

Líklegt þykir að næsti landsliðsþjálfari verði erlendur. Þarf að hækka launaþakið til þess að það gangi eftir? 

„Varðandi erlendan þjálfara hvort hann verði á frekari fóðrum og hvort við þurfum að auka launin er eitthvað sem við tæklum þegar til kemur. Við erum bæði að skoða innlenda og erlenda þjálfara. Við erum með opinn hug núna hvað þetta varðar. Við erum ekki komin svo langt hvort við myndum hækka launin ef við virkilega þyrftum til að tryggja okkur einhvern þjálfara sem við teljum vera rétta manninn," sagði Guðni enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert