Mikil fækkun Íslendinga í danska fótboltanum

Björn Daníel Sverrisson leikur með AGF.
Björn Daníel Sverrisson leikur með AGF.

Aðeins þrír Íslendingar leika með liðunum fjórtán í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu við upphaf nýs tímabils og það er ár og dagur síðan þeir hafa verið svo fáir. Sem dæmi komu fjórtán Íslendingar við sögu í deildinni á árunum 2015 til 2016. Fyrsta umferð tímabilsins 2018-2019 hófst í Danmörku á föstudaginn og lauk í gærkvöld.

Hannes Þór Halldórsson, Rúnar Alex Rúnarsson og Kjartan Henry Finnbogason hurfu allir á brott í sumar, Hannes til Qarabag í Aserbaídsjan, Rúnar til Dijon í Frakklandi og Kjartan til Ferencváros í Ungverjalandi. Þá var Mikael Anderson á mála hjá meisturum Midtjylland en var í láni hjá Vendsyssel sem fór upp í úrvalsdeildina í vor og lék þar nokkuð stórt hlutverk. Mikael, sem leikur með U21-landsliði Íslands, fór hins vegar í sumar til Excelsior í Hollandi sem lánsmaður frá Midtjylland.

Björn Daníel fékk langþráð tækifæri í byrjunarliði AGF, það fyrsta í tæpt ár, þegar Árósaliðið náði óvænt 0:0 jafntefli gegn Midtjylland á útivelli á laugardaginn, og spilaði allan tímann á miðjunni. Björn lék aðeins fimm leiki með liðinu á síðasta tímabili og var lánaður til Vejle í B-deildinni hluta þess, en hann var um tíma orðaður við íslensk félög í vor.

Greinina um Íslendinga í danska fótboltanum má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert