Verðskuldaður sigur HK/Víkings

Hildur Antonsdóttir reynir að stöðva Evu Núru Abrahamsdóttur í kvöld.
Hildur Antonsdóttir reynir að stöðva Evu Núru Abrahamsdóttur í kvöld. mbl.is/Arnþór

HK/Víkingur vann góðan 3:1-útisigur á FH í Pepsi-deild kvenna í fótbolta í kvöld. FH var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en HK/Víkingur mikið betri í síðari og voru úrslitin verðskulduð. 

HK/Víkingur er þar með kominn í fimmta sæti deildarinnar með 13 stig og er sjö stigum fyrir ofan FH og KR sem sitja í fallsætunum með 6 stig.

Það var algjörlega verðskuldað þegar Eva Núra Abrahamsdóttir skoraði glæsilegt mark á 11. mínútu. Hún tók þá fallegt skot á lofti sem endaði í markvinklinum og kom FH yfir, 1:0.

FH-ingar voru líklegri til að bæta við marki en HK/Víkingur að jafna á næstu mínútum en eftir því sem leið á leikinn komst HK/Víkingur meira inn í leikinn og áttu gestirnir nokkrar fínar tilraunir. Að lokum kom jöfnunarmarkið rétt fyrir hálfleik.

Melkorka Katrín Fl Pétursdóttir tók þá upp á því rífa í hárið á Hildi Antonsdóttur innan teigs og dæmdi Kristinn Friðrik Hrafnsson, góður dómari leiksins, vítaspyrnu. Úr henni skoraði Fatma Kara af öryggi og staðan í hálfleik 1:1.

Kader Hancar kom inn á sem varamaður í sínum fyrsta leik í hálfleik og kom hún með auka kraft í sóknarleik HK/Víkings. Á sjöundu mínútu síðari hálfleiks var hún búin að leggja upp mark. Hún sendi á Hildi sem tók skemmtilega á móti boltanum og lagði hann upp í vinkilinn.

Hancar skoraði svo þriðja markið sjálf rétt fyrir leikslok. Margrét Sif átti þá flotta sendingu á hana og Hancar kláraði með einstaklega snyrtilegri vippu yfir Anítu í markinu og 3:1-sigur HK/Víkings raunin. 

FH 1:3 HK/Víkingur opna loka
90. mín. Eva Núra Abrahamsdóttir (FH) fær gult spjald Allt of sein í tæklingu, rétt dæmt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert