Gleymum því sem gerðist hér í kvöld

Fanndís á Selfossi í kvöld.
Fanndís á Selfossi í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Það er mjög gaman að vera komin aftur út á völlinn en við hefðum mátt vinna í dag,“ sagði landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir, sem spilaði sinn fyrsta leik í kvöld fyrir Val í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.

Fanndís lék síðast knattspyrnuleik fyrir rúmum fimm vikum þegar Ísland vann Slóveníu og hún segir þetta hlé hafa gert sér gott.

„Já, það var fínt að taka sér frí eftir mjög langt og erfitt tímabil með Marseille í Frakklandi. Ég þurfti alveg á því að halda. En, jú, það er fínt að vera komin aftur í Pepsi-deildina.

Hún var þó alls ekki sátt við úrslit kvöldsins.

„Mér fannst við betra liðið og við fengum helling af færum en maður þarf að skora til að vinna. Það hefði skipt miklu að fá fyrsta markið því að þær hefðu þá misst kraftinn sem þær höfðu. Eftir því sem leið lengur á leikinn höfðu þær meiri kraft og trú á verkefninu en þetta er stig og við tökum það,“ sagði Fanndís.

Það er þó óvíst hvað þetta eina stig gegn Selfyssingum gerir fyrir Val, sem situr í þriðja sæti, þar sem bilið er að aukast í topplið Breiðabliks og Þórs/KA.

„Já, þannig er það bara. Það þýðir ekkert fyrir okkur að vera pæla of mikið í því hvað hin liðin eru að gera. Það er bara ný keppni í næsta leik og við þurfum bara að fókusera á það og gleyma því sem gerðist hér í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert