Gáfum þeim ekki neina von

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar.
Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar.

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, var sáttur eftir að liðið tryggði sig áfram í aðra umferð Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í dag. Stjarnan tapaði 1:0-fyrir Nömme Kalju í Eistlandi en vann 3:0-sigur á heimavelli í síðustu viku og því einvígið samtals 3:1.

Stjörnumenn voru agaðir á Kadriorg-leikvanginum í Tallinn í dag og vörðust vel lengst af. „Við vorum náttúrulega að spila í 25 stiga, tvöfalt það sem maður er vanur á Íslandi. Við vissum að þetta yrði erfitt en bjuggum okkur undir það,“ sagði Haraldur í samtali við mbl.is strax eftir leik.

„Með það forskot sem við höfðum þá þurftum við bara að byrja leikinn á að vera þéttir og ekki gefa þeim von um að geta komist inn í leikinn. Þeir eru auðvitað betri á heimavelli og vanir hitanum.“

„Við vorum kannski dálítið ragir við að spila okkar leik í upphafi en svo unnum við okkur vel inn í síðari hálfleikinn. Þeir ná inn einu baráttumarki en það kom ekki að sök.“

Mættum af krafti í þetta einvígi

Þrátt fyrir að Eistarnir hafi þurft að skora mörkin í dag þá reyndi ekki sérlega mikið á hvorki varnarmenn Stjörnunnar né Harald í markinu. „Í rauninni ekki, þeir voru að reyna senda langa bolta upp að endamörkum og við lokuðum vel á það. Svo fara þeir að reyna einhver langskot sem engin hætta var af.“

Stjarnan féll út úr keppninni á sama stigi í fyrra eftir samanlagt 2:0-tap gegn Shamrock Rovers frá Írlandi. Haraldur segir leikmannahópinn hafa lært af því einvígi.

„Þetta er mikið til sami hópurinn frá því í fyrra og leikirnir gegn Shamrock voru mínír fyrstu í Evrópukeppni og við drógum held ég allir mikinn lærdóm af því. Þetta eru ekkert ósvipuð lið en við mættum af krafti í þetta einvígi og þorðum að pressa. Á meðan vorum við kannski of varkárir í fyrra.“

Deildin heima er alltaf að styrkjast

Stjarnan mætir annaðhvort FC Köbenhavn frá Danmörku eða KuPS Kuopio frá Finnlandi í næstu umferð. Danirnir unnu eins marks sigur í Finnlandi í síðustu viku og eigast liðin svo við í Kaupmannahöfn í kvöld. Danski risinn er því líklegur andstæðingur í næstu umferð.

„Þeir eru ekki komnir áfram en það er svona líklegt. En það er sama hverjum við mætum, við erum núna fullir tilhlökkunar að mæta KR um helgina og svo förum við að einbeita okkur að næsta einvígi í Evrópu.“

Að lokum sagði Haraldur það vera til marks um framfarir knattspyrnunnar á Íslandi hversu vel íslensku liðin væru að fara af stað í Evrópukeppnum í sumar.

„Ekki spurning. Valsararnir voru ótrúlega flottir og hefðu verðskuldað að komast áfram og FH-ingar hljóta að klára sinn leik. Það er gaman þegar íslensku liðunum gengur vel og það sýnir bara að deildin er alltaf að styrkjast heima.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert