Keflavík styrkir stöðu sína á toppnum

Úr leik Keflavík og ÍR fyrr í sumar.
Úr leik Keflavík og ÍR fyrr í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflavík jók forystu sína á toppi Inkasso-deildar kvenna í knattspyrnu enn frekar með 2:0-sigri á ÍR á Nettóvellinum í kvöld.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu þær Marín Rún Guðmundsdóttir og Anita Lind Daníelsdóttir fyrir heimakonur sem sigldu að lokum nokkuð þægilegum sigur í höfn. Keflavík er með 25 stig á toppnum eftir níu leiki, fjórum stigum meira en Fylkir sem á leik til góða. ÍR er aftur á móti áfram í 8. sæti með átta stig og hefur leikið tveimur leikjum meira en næsta lið, Afturelding/Fram sem hefur sjö stig.

Í hinum leik kvöldsins vann Fjölnir 2:1-sigur á Þrótti á Extra-vellinum þökk sé góðri byrjun. Sara Montoro kom heimakonum yfir strax á 8. mínútu og Harpa Lind Guðnadóttir tvöfaldaði forystuna eftir um hálftíma leik.

Gabriela Maria Mencotti klóraði í bakkann fyrir gestina í síðari háflleik en nær komust þeir ekki. Fjölnir stökk því upp úr fallsæti og í það 6., en liðið er nú með níu stig. Þrótturum mistókst hins vegar að skríða upp í annað sætið. Þeir eru áfram í því þriðja með 20 stig, einu stigi frá Fylki sem nú á einnig tvo leiki til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert