Við gáfum þeim aldrei séns

Viðar Ari Jónsson
Viðar Ari Jónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum þéttir og spiluðum vel og skoruðum þrjú mörk á útivelli sem gerði eiginlega út um þetta einvígi," sagði Viðar Ari Jónsson, leikmaður FH, í samtali við mbl.is eftir markalaust jafntefli við Lahti í síðari leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta í kvöld. 

FH vann fyrri leikinn 3:0 og gaf ekki nein færi á sér í kvöld. FH skapaði hins vegar lítið líka og úr varð bragðdaufur leikur. 

„Við vorum með þrjú mörk á þá og ég held það hafi verið svolítið í höfðinu á okkur. Við vorum með forskotið og við vissum að við gætum haldið í og mér fannst við gera vel, þeir áttu aldrei nokkurn séns. Með fullri virðingu þá reiknuðum við með meira frá þeim. Við kláruðum þetta í fyrri leiknum og leikurinn í kvöld spilaðist eins og við reiknuðum með."

FH tryggði sér einvígi við Hapoel Haifa frá Ísrael í næstu umferð með sigrinum og Viðar er spenntur fyrir því. 

„Það er sól og sumar þar og erfiðir andstæðingar, það verður virkilega gaman. Ég reikna með að þetta verði erfiðara en ég veit ekki mikið um andstæðinginn. Það ætti að vera mjög heitt í Ísrael en við ætlum að gefa þeim alvöru leiki," sagði Viðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert