Eigum að vera með meiri gæði

Hallbera Guðný Gísladóttir
Hallbera Guðný Gísladóttir Ljósmynd/Víkurfréttir

„Við vorum ekki nógu beittar í sókninni og það vantaði einbeitingu tvisvar í vörninni og þær skora," sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, bakvörður Vals, eftir 2:0-tap fyrir Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta. 

Valur var mikið með boltann í leiknum en það gekk erfiðlega að skapa færi. 

„Við vorum meira með boltann og við hefðum átt að skapa okkur miklu meira. Það er ekki alltaf liðið sem er meira með boltann sem vinnur. Þær spiluðu þetta vel og eiga þetta skilið. Það vantaði smá hugmyndaflug og að skapa eitthvað, það gekk ekki í dag. Þær voru þéttar og verjast vel, en við eigum að vera með meiri gæði, þetta var ekki nógu gott."

Valur hefur leikið fjóra leiki í röð án sigurs. Hallbera segir það ekki hafa áhrif á liðið. 

„Ég held ekki, stundum er þetta svona. Við eigum Stjörnuna næst og það er eins gott að við sýnum karakter þá og fáum svo smá blóð á tennurnar og girðum á okkur brækurnar," sagði Hallbera að endingu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert