Góður stígandi í þessu hjá mér

Andri Adolphsson átti flottan leik fyrir Valsmenn í dag og …
Andri Adolphsson átti flottan leik fyrir Valsmenn í dag og skoraði tvö góð mörk. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum oft spilað betur en í dag en við kláruðum færin okkar vel og það eru mörkin sem telja,“ sagði Andri Adolphsson, leikmaður Vals, eftir 4:1-sigur liðsins gegn Víkingi Reykjavík í 13. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

Andri var í miklu stuði í leiknum og skoraði tvívegis fyrir heimamenn og þá komust Kristinn Ingi Halldórsson og Birkir Már Sævarsson líka á markalistann hjá Val en það var Nikolaj Hansen sem skoraði mark Víkinga í stöðunni 3:0.

„Við vorum í ákveðnum vandræðum út á vellinum sjálfum og áttum margar misheppnaðar sendingar. Við vorum klaufar í dag, ég get alveg viðurkennt það. Við vorum að koma okkur í ágætistækifæri en svo var síðasta sendingin að klikka, oft á tíðum, á síðasta þriðjungnum. Það var smá þreyta í hópnum eftir ferðalagið um daginn í Evrópudeildinni, það er hins vegar alltaf jákvætt að vinna 4:1, sérstaklega þegar að maður er ekki að eiga sinn besta dag.“

Andri átti góðan leik fyrir Valsmenn en það hefur verið góður stígandi í hans leik í sumar.

„Það er alltaf gaman að skora, sérstaklega þegar það hjálpar liðinu að ná í þrjú stig. Ég legg mig fram í hvert einasta skipti sem ég stíg út á völlinn og það hefur verið góð stígandi í þessu hjá mér í sumar. Ég er mjög bjartsýnn upp á framhaldið að gera og vonandi getum við haldið áfram að safna stigum í pokann,“ sagði Andri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert