Hetja KR hógvær - „þetta var fínt mark“

Óskar Örn Hauksson skoraði sigurmark KR gegn Stjörnunni.
Óskar Örn Hauksson skoraði sigurmark KR gegn Stjörnunni. mbl.is/Hari

„Ég er virkilega ánægður,“ sagði brosmildur Óskar Örn Hauksson við mbl.is eftir 1:0-sigur KR gegn Stjörnunni í 13. umferð Pepsi-deildar karla í Vesturbænum í kvöld. KR-ingar komust með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar.

Óskar skoraði sigurmarkið með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu eftir hálftíma leik. Markið var það fyrsta sem hann skorar í deildinni í sumar en þetta er fimmtánda tímabilið röð sem Óskar skorar í efstu deild hér á landi.

„Ég er lítið að pæla í því. Það er gaman að því en ég er búinn að bíða aðeins eftir þessu marki í sumar. Ég er vanur að skora og þetta var aðeins komið bak við eyrað. Nú er það frá og stefnan er sett á fleiri í framhaldinu,“ sagði Óskar sem var hógvær þegar talið barst að markinu sjálfu:

„Þetta var fínt mark en ég fékk upphitun aðeins áður.“ Upphitunin fólst í skoti yfir marki úr aukaspyrnu af svipuðu færi örfáum mínútum fyrir markið.

KR-ingar voru heilt yfir sterkari aðilinn í dag en þeir hafa misst nokkra leiki niður í jafntefli eða tap undir lokin í sumar. Það vakti nokkra athygli þegar Óskar hljóp að varnarmönnum KR undir lok leiksins og öskraði einhver vel valin orð að þeim.

„Ég ætlaði að kveikja aðeins í mönnum og sjá til þess að það kæmi ekki eitthvert sítamark í lokin eins og hefur komið fyrir áður og hefur kostað okkur helvíti mikið í sumar,“ sagði fyrirliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert