Hundfúlt að tapa á gamla heimavellinum

Þorsteinn Már Ragnarsson með boltann í leik fyrr í sumar.
Þorsteinn Már Ragnarsson með boltann í leik fyrr í sumar. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Þetta er hundfúlt. Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða og hefði getað dottið hvoru megin sem var,“ sagði Stjörnumaðurinn, og fyrrverandi leikmaður KR, Þorsteinn Már Ragnarsson, eftir 1:0-tap gegn KR í 13. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Vesturbænum í kvöld. Stjarnan er í öðru sæti deildarinnar með 25 stig.

„Þeir börðust vel. Ég ætla ekki að segja að þeir hafi verðskuldað sigurinn en þeir unnu í dag,“ sagði Þorsteinn en fyrir leik dagsins hafði Stjarnan unnið sex deildarleiki í röð.

Garðbæingar léku Evrópuleik í Eistlandi á fimmtudag en Þorsteinn neitaði að kenna þreytu um tapið í dag og sagði að leikmenn vildu spila eins marga leiki og mögulegt væri. 

„Við erum í hörkuformi og mjög skemmtilegu prógrammi,“ sagði Þorsteinn en Stjarnan mætir danska stórliðinu FCK í fyrri leik liðanna í annarri umferð Evrópudeildarinnar í Garðabænum á fimmtudag.

Þorsteinn virkaði nokkrum sinnum í pirraður út í Þorvald Árnason, dómara leiksins, en sagði að það væri eðlilegt að fá ekki allt sem hann vill. „Ég ætla ekkert að setja út á hann en hann dæmdi ágætlega. Þetta var bara pirringur í hita leiksins og svo er það búið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert