Viljum vinna titla fyrir Blika

Gísli Eyjólfsson.
Gísli Eyjólfsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er fátt betra en að spyrna sér frá FH og vinna þá með góðum leik,“ sagði kampakátur Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, í spjalli við mbl.is eftir 4:1-sigur á FH í 13. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu.

Blikum hefur gengið misvel að skora í leikjum sínum í sumar og var Gísli sjálfur ekki búinn að skora í um sex vikur eftir fjögur mörk í fyrstu leikjum mótsins. Hann skoraði þó eitt í dag og kom að sögu í tveimur öðrum er Blikar léku á als oddi gegn lánlausu liði FH. 

„Við höfum verið óheppnir og ekki nýtt færin en höfum spilað vel án þess að það hafi verið að detta með okkur. En við kannski svöruðum þessari gagnrýni aðeins í dag og settum fjögur mörk, það var virkilega sætt.“

Thomas Mikkelsen er nú búinn að skora í báðum leikjum sínum fyrir Breiðablik eftir að hann fékk leikheimild á dögunum og segir Gísli vonandi að Daninn haldi því áfram.

„Hann er búinn að koma vel inn í þetta. Ég hef ekki alveg átta mig á því hversu góður hann er en vonandi heldur hann bara þessu áfram.“

Að lokum segir Gísli liðið klárlega stefna á toppinn en Blikar eru nú í 3. sæti deildarinnar með 25 stig, þremur stigum frá toppliði Vals.

„Það er hundleiðinlegt að vera ekki að berjast um eitthvað. Það er auðvitað gamla góða klisjan að fara bara í hvern leik til að vinna en við viljum vinna eitthvað fyrir Blika, það er alveg hundrað prósent.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert