Moldóva eða Makedónía bíður Valsara

Anton Ari Einarsson og samherjar í Val eru komnir yfir …
Anton Ari Einarsson og samherjar í Val eru komnir yfir í Evrópudeildina eftir tapið gegn Rosenborg. Þeir spila í Andorra á fimmtudaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Verið er að draga til 3. umferðarinnar í Evrópudeildinni UEFA í knattspyrnu í dag og er nú komið í ljós hverjum Valsmenn og önnur lið sem koma yfir í Evrópudeildina eftir tap í 1. umferð Meistaradeildarinnar geta mætt.

Takist Völsurum að leggja Santa Coloma frá Andorra í annarri umferð Evrópudeildarinnar mæta þeir tapliðinu úr einvígi Shkëndija frá Makedóníu og Sheriff frá Moldóvu í Meistaradeildinni. Valsarar spila fyrri leikinn í Andorra á fimmtudaginn kemur og svo á Hlíðarenda viku seinna.

Einnig er ljóst hverjum Íslendingaliðin í Meistaradeildinni geti mætt, tapi liðin einvígum sínum þar en þá mæta þau til leiks í 3. umferð Evrópudeildarinnar. Matthías Vilhjálmsson og félagar í Rosenborg mæta Cork City frá Írlandi, takist þeim ekki að leggja skosku meistara Celtic að velli í undankeppni Meistaradeildarinnar.

Tapi Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö gegn Cluj frá Rúmeníu bíður þeirra einvígi gegn annaðhvort Sutjeska frá Svartfjallalandi eða Alashkert frá Armeníu. Að lokum er landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson í Qara­bag frá Aser­baíd­sj­an en tapi liðið gegn Kukësi frá Albaníu í annarri umferð Meistaradeildarinnar mætir það annaðhvort Torpedo Kutaisi frá Georgíu eða Víkingum frá Færeyjum í Evrópudeildinni.

Nú í hádeginu kemur svo í ljós hverjum Stjarnan og FH mæta í 3. umferðinni í Evrópudeildinni, komist þau í gegnum 2. umferðina, en þá verður dregið til leikja milli þeirra liða sem komust áfram í annarri umferðinni eða féllu úr leik í annarri umferð Meistaradeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert